Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hátíðahöld verða ekki með hefðbundnum hætti í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg - RÚV
Sóttvarnalæknir leggur til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki tvö þúsund manns, að minnsta kosti út ágúst. Þetta kemur fram í minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Ljóst er að fjöldatakmarkanir munu hafa áhrif á hátíðahöld og íþróttaviðburði í sumar.

Reykjavíkurborg skipuleggur árlega stóra viðburði yfir sumarmánuðina. Má þar nefna Barnamenningarhátíð, hátíðahöld á 17. júní og Menningarnótt. Menningarnótt er alla jafna fjölmennasti viðburðurinn en þá safnast oftast um hundrað þúsund manns saman í miðborginni.  

„Við vorum einmitt að bíða eftir þessum fundi í dag til að geta tekið ákvarðanir um framhaldið. Þetta er allt í skoðun en ég held það sé alveg ljóst að þessar hátíðir verða ekki með hefðbundnu sniði í ár, “  segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar – og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Hátíðirnar verði ekki slegnar af

Arna segir þó ólíklegt að hátíðirnar verði slegnar af. Verið sé að leita leiða til að útfæra dagskrána þannig að fjöldatakmarkanir séu virtar.

„Við reynum í lengstu lög að slá þetta ekki af og það er verið að skoða alls konar hugmyndir til að fólk geti haldið upp á þessa daga í borginni. Það er til dæmis hægt að dreifa viðburðum yfir lengri tíma í stað þess að halda einn stóran viðburð. Við erum með varaplan, og varavaraplan,“ segir Arna.  

Ýmislegt til skoðunar

Forsætisráðuneytið hefur séð um skipulagningu hátíðarræðu forsætisráðherra á Austurvelli á 17. júní en samkvæmt upplýsingum þaðan er einnig verið að skoða hvernig það verður útfært í ár. 

Þá segir Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, formaður Hinsegin daga í Reykjavík, að enn sem komið er sé ekki sé búið að taka ákvörðun um hvernig staðið verður að hátíðinni í ár. Tugþúsundir koma venjulega saman á Hinsegin dögum sem haldnir eru í ágúst.