Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forbes mærir Katrínu og kvenleiðtoga í COVID-faraldri

14.04.2020 - 04:47
Mynd með færslu
Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, saman á Þingvöllum. Mynd: Stjórnarráðið
Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Nýja Sjáland, Taívan og Þýskaland eru meðal þeirra ríkja sem hafa náð hvað bestum tökum á að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þessi ríki eiga það sameiginlegt að ríkisstjórnir þeirra eru leiddar af konum.

Blaðamaður Forbes bendir á þessa staðreynd og segir þessi ríki setja góð dæmi um leiðtogahæfni á krísutímum. Hún tekur svo dæmi um þær fjórar leiðir sem þessir leiðtogar hafa farið; það er með því að segja sannleikann, grípa fljótt til aðgerða, nýta tæknina og með umhyggju.

Tæknin

Í grein Forbes segir að undir leiðsögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra bjóðist Íslendingum frí skimun fyrir veirunni, á meðan flest önnur ríki skoða aðeins þá sem sýna einkenni. Ísland gæti þannig orðið lykil-rannsóknarefni um raundreifingu og dánartíðni af völdum COVID-19. Þá segir að vegna öflugrar skimunar og smitrakningar hafi ekki þurft að grípa til útgöngubanns eða lokunar skóla á landinu. Ísland er undir tæknihlutanum í grein Forbes ásamt Finnlandi. Þar notuðu stjórnvöld áhrifavalda á samfélagsmiðlum til þess að dreifa skilaboðum um hvernig best sé að bera sig að í svona faraldri. Finnar hafi áttað sig á því að það lesa ekki allir hefðbundna fjölmiðla til þess að afla sér upplýsinga á tímum sem þessum.

Trúverðugleikinn

Greinin mærir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, fyrir að hafa komið snemma fram og greint frá því að allt að sjö af hverjum tíu Þjóðverjum gætu smitast af veirunni. Þetta væri alvarlegt mál sem Þjóðverjar yrðu að taka alvarlega. Skimun fyrir veirunni er mun öflugri í Þýskalandi en í nágrannaríkjum á meginlandi Evrópu. Þar er dánartíðni enda miklu lægri og líkur á að stjórnvöld losi um höft á næstunni.

Snöggt viðbragð

Þær Tsai Ing-wen í Taívan og Jacinda Ardern í Nýja Sjálandi eru sagðar hafa sýnt snör viðbrögð í baráttunni við faraldurinn. Ing-wen kynnti 124 aðgerðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar eftir að fyrsta smit greindist í Taívan í janúar. Engar aðgerðanna sneru þó að útgöngubanni. Innan við 400 tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Taívan það sem af er. Ardern beitti fljótt útgöngubanni og skipaði þeim sem voru að koma til landsins að fara í sóttkví þegar aðeins var búið að greina sex tilfelli í landinu. Hún er heldur ekkert á þeim buxunum að draga úr aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar, líklega vegna þess hve vel þær ganga. 

Umhyggjan

Loks víkur greinin að þeim Ernu Solberg og Mette Frederiksen í Noregi og Danmörku. Þær gáfu sér tíma til þess að svara spurningum barna um allt land, og útskýrðu af hverju það er í góðu lagi að vera hræddur.

Í greininni eru lesendur svo beðnir um að bera þessar aðferðir saman við þær sem nokkur ríki hafa farið, þar sem leiðtogar hafa sóst eftir auknu valdi, kenna öðrum um ófarir, segja fjölmiðla af hinu illa og fara skrefi nær alræði. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV