Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fólki finnst merkilegt að ég sé karl að sauma“

Mynd: Loji Höskuldsson / Loji Höskuldsson

„Fólki finnst merkilegt að ég sé karl að sauma“

14.04.2020 - 14:38

Höfundar

Loji Höskuldsson myndlistarmaður var á leið með bekkjarfélögum sínum í Listaháskóla Íslands til Seyðisfjarðar þegar móðir hans, sem er hannyrðakona, rétti honum flosnál til að taka með sér í ferðalagið. Loji hefur saumað síðan og vakið mikla athygli fyrir verk sín.

Nú verja flestir Íslendingar mestum tíma heima við og hafa margir nýtt inniveru og samkomubann til að uppgötva nýja hæfileika eða rækta þá sem eru til staðar. Á meðan einhverjir eru í sjálfsnámi á hljóðfæri, virkja raddböndin í söng eða taka upp penslana hafa líka margir tekið upp á dusta rykið af prjónakunnáttunni eða jafnvel lært að sauma.

Hannyrðahefðin á sér langa og merkilega sögu hér á landi og það má margt læra af formæðrum og jafnvel forfeðrum okkar í þeim efnum. Sigrún Bragadóttir hannyrðapönkari fór yfir söguna í fjórum þáttum um Hannyrðapönk sem hljómuðu á Rás 1 um páskana. Í þáttunum ræðir hún meðal annars við Loja Höskuldsson myndlistarmann sem hefur vakið mikla athygli fyrir útsaum sinn sem hann hefur stundað í tíu ár. Í list sinni kannar hann hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi og eru viðfangsefnin fengin úr hversdagsleikanum, plöntur, ávextir, ópal- og sígarettupakkar og hlutir sem finnast á heimilum.

Mynd með færslu
 Mynd: Ungir fréttamenn
Loji með nokkrum af útsaumsverkunum sínum vinsælu

Loji hefur sett upp margar sýningar frá því að sú fyrsta var opnuð árið 2010. Þá var hann aðeins 23 ára. Útsauminn lærði hann af sjálfsdáðum en naut aðstoðar móður sinnar sem er hannyrðakona og rekur bútasaumsbúðina Frú Bóthildi. Hún dró hann gjarnan með sér í hannyrðaverslanir þegar hann var yngri, sem barninu fannst ekkert skemmtiefni, en nokkrum árum síðar varð hann sjálfur tíður gestur í slíkum verslunum. Áhugi hans á hannyrðum kviknaði þegar hann var á leið til Seyðisfjarðar með skólafélögunum í Listaháskóla Íslands og móðir hans rétti honum flosnál í kveðjuskyni. Í ferðalaginu fór hann að prófa sig áfram með nál og tvinna og má segja að Loji hafi saumað síðan.

Hann hefur tekið eftir því að lífsviðurværið veki furðu hjá fólki vegna þess að hann er karlmaður. „Fólki finnst oft merkilegt að ég sé karl að sauma. Þegar ég tala um að ég hafi lært í Listaháskólanum finnst fólki merkilegt að ég sé ekki að mála,“ viðurkennir hann. Sjálfur tekur hann líka virkan þátt í umræðu í ýmsum innlendum og erlendum hannyrðahópum á samfélagsmiðlum þar sem fólk, aðallega konur, skiptast á uppskriftum og sýna að hverju þær eru að vinna. Jafnvel á þeim vettvangi tekur Loji eftir því að mörgum er brugðið að sjá karlmann með slíka ástríðu fyrir saumaskap. „Þegar ég er með sýningu hef ég stundum sett inn auglýsingar á hópinn og fæ iðulega athugasemdir á borð við: Alltaf gaman að sjá hvað karlmenn eru að gera.“

Rætt var við Loja Höskuldsson í þáttaröðinni Hannyrðapönk sem flutt var í fjórum hlutum um páskana.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Tússaði nafn Ninu Haagen á gallabuxurnar sínar