Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gantz fær ekki lengri frest til stjórnarmyndunar

13.04.2020 - 03:48
Blue and White party leader Benny Gantz and his wife Revital wave to supporters at party headquarters after the first results of the elections in Tel Aviv, Israel, Wednesday, Sept. 18, 2019. (AP Photo/Oded Balilty)
Hjónin Benny og Revital Gantz að kvöldi kjördags í september 2019 Mynd: AP
Forseti Ísraels neitaði í gær Benny Gantz, leiðtoga Bláhvíta-bandalagsins, um lengri tíma til stjórnarmyndunarviðræðna. Þeir Gantz og forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu verða því að ná saman fyrir miðnætti í kvöld ef þeir ætla að mynda nýja ríkisstjórn. Takist það ekki gætu Ísraelsmenn þurft að ganga til kosninga í fjórða sinn á rétt rúmu ári. 

Gantz naut stuðnings naums meirihluta þingmanna til að mynda stjórn eftir síðustu kosningar. Eftir að kórónuveirufaraldurinn blossaði upp sneri hann baki við flokkum sem studdu hann, og ákvað að láta reyna á stjórnarmyndun með Likud-bandalagi Netanyahus. Fyrir nokkrum dögum leit út fyrir að flokkarnir hefðu náð saman um myndun nokkurs konar þjóðstjórnar þar sem leiðtogarnir ætluðu að skipta forsætisráðuneytinu á milli sín á kjörtímabilinu. Nú virðist hins vegar snurða hafa hlaupið á þráðinn.

Guardian hefur eftir yfirlýsingu frá forsetaembættinu að Reuven Rivlin hafi ákveðið að taka keflið af Gantz eftir samtal við Netanyahu. Rivlin gæti snúist hugur ef báðar fylkingar biðja um framlengingu á viðræðunum.

Netanyahu gæti fengið tækifæri til að mynda stjórn ef honum tekst að tryggja sér stuðning meirihluta þeirra 120 þingmanna sem sitja á ísraelska þinginu. Samkvæmt Guardian skortir hann aðeins tvo þingmenn þar upp á. Takist honum það ekki hefur þingið þrjár vikur til þess að velja annan forsætisráðherra. Nái þeir ekki saman um hann verður kosið til þings enn á ný í Ísrael síðar á árinu.