
Frestur Gantz til stjórnarmyndunar átti að renna út á miðnætti í kvöld. Í gær bárust fregnir af forsetaskrifstofunni um að frekari frestur yrði ekki veittur, eftir að forsetinn hafði ráðfært sig við Netanyahu. Nú segir í yfirlýsingu frá forsetaembættinu að honum skiljist að þeir séu við það að ná samkomulagi.
Með myndun stjórnar koma þeir í veg fyrir fjórðu þingkosningarnar á rétt rúmu ári. Flokkar Gantz og Netanyahus, Bláhvíta-bandalagið og Likud-bandalagið, voru nánast hnífjafnir eftir þessar þrjár kosningar og algjör pattstaða myndaðist í stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkarnir eru þeir einu sem geta myndað saman tveggja flokka stjórn, en Gantz hefur ekki hugnast stjórnarsamstarf við Netanyahu. Forsætisráðherrans bíður ákæra fyrir umfangsmikla spillingu. Gantz ákvað hins vegar að brjóta odd af oflæti sínu í þetta sinn og mynda nokkurs konar þjóðstjórn til þess að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum.