Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forsetinn veitir Gantz tveggja daga frest

13.04.2020 - 23:16
epa08063656 General view of Knesset members during a vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament at the Knesset plenum (parliament) in Jerusalem, Israel, 11 December 2019. Media reports state that the Israeli government vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament and will go to a third elections presumably on 02 March 2020 after negotiations talks between the Likud Party and the Blue and White Party failed.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Ísraelska þingið, Knesset. Mynd: EPA-EFE - EPA
Reuven Rivlin, forseti Ísraels, virðist nú hafa trú á því að þeir Benny Gantz og Benjamin Netanyahu geti náð saman um myndun ríkisstjórnar. Hann veitti Gantz í kvöld tveggja sólarhringa frest til viðbótar til þess að mynda stjórn með stuðningi forsætisráðherrans Netanyahus. 

Frestur Gantz til stjórnarmyndunar átti að renna út á miðnætti í kvöld. Í gær bárust fregnir af forsetaskrifstofunni um að frekari frestur yrði ekki veittur, eftir að forsetinn hafði ráðfært sig við Netanyahu. Nú segir í yfirlýsingu frá forsetaembættinu að honum skiljist að þeir séu við það að ná samkomulagi.

Með myndun stjórnar koma þeir í veg fyrir fjórðu þingkosningarnar á rétt rúmu ári. Flokkar Gantz og Netanyahus, Bláhvíta-bandalagið og Likud-bandalagið, voru nánast hnífjafnir eftir þessar þrjár kosningar og algjör pattstaða myndaðist í stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkarnir eru þeir einu sem geta myndað saman tveggja flokka stjórn, en Gantz hefur ekki hugnast stjórnarsamstarf við Netanyahu. Forsætisráðherrans bíður ákæra fyrir umfangsmikla spillingu. Gantz ákvað hins vegar að brjóta odd af oflæti sínu í þetta sinn og mynda nokkurs konar þjóðstjórn til þess að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum.