Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Unnusta Assange krefst lausnar hans vegna faraldursins

12.04.2020 - 01:13
epa08125148 Supporters of Wikileaks founder Julian Assange demonstrate outside Westminster Magistrates Court in London, Britain, 13 January 2020. Assange appeared in court to prevent his extradition to the US where would be facing espionage charges.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, er sagður faðir tveggja barna sem lögmaður hans fæddi á meðan hann leitaði skjóls í sendiráði Ekvadors í Lundúnum. Frá þessu er greint í breska sunnudagsblaðinu Mail on Sunday.

Blaðið birtir myndir af Assange með drengjunum í greininni, auk viðtals við Stellu Morris, lögmann hans. Þar segir hún þau Assange hafa orðið ástfangin og byrjuð a ðskipuleggja brúðkaup.

Að sögn Mail on Sunday trúlofuðu þau Assange og Morris sig árið 2017. Assange situr nú í Belmarsh-fangelsinu í Lundúnum á meðan hann berst gegn framsalskröfu Bandaríkjanna þar sem hans bíða ákærur fyrir njósnir. Það er einmitt úr dómsskjölum sem blaðamenn Mail on Sunday segjast hafa fengið veður af trúlofuninni.

Eftir birtingu greinarinnar staðfesti Wikileaks hana á Twitter. Þar sagði að unnusta Assange, og móðir tveggja barna þeirra, hvetji bresku stjórnina til þess að sleppa honum lausum líkt og öðrum viðkvæmum föngum á meðan kórónuveirufaraldurinn geisar í breskum fangelsum. Þá var einnig birt viðtal við Morris, þar sem hún sagði frá fimm ára sambandi sínu við Assange. 

Assange á yfir höfði sér þungan dóm í Bandaríkjunum verði hann fundinn sekur. Hann er ákærður fyrir njósnir eftir birtingu leyniskjala um hernað Bandaríkjanna í Afganistan og Írak árið 2010. Hann leitaði skjóls í sendiráði Ekvadors í Lundúnum árið 2012 til þess að forðast framsal til Svíþjóðar þar sem hann var ákærður fyrir kynferðisbrot. 

Samband þeirra Morris og Assange hófst árið 2015 að sögn Mail on Sunday, þegar Morris var lögmaður hans. Ári síðar varð hún þunguð af fyrra barni þeirra. Assange fylgdist með báðum fæðingum í gegnum vefmyndavél. Hann fékk svo að hitta eldri drenginn þegar honum var smyglað inn í sendiráðið segir í grein Mail on Sunday. Drengirnir eru báðir breskir ríkisborgarar og hafa fengið að hitta föður sinn í fangelsinu. 

Morris segist í viðtalinu hafa haldið sig utan sviðsljóssins, og Assange hafi gert hvað hann getur til að vernda hana frá því. Nú hafi hún hins vegar orðið að koma fram þar sem heilsa Assange sé tæp. Hún segist innilega ástfangin af honum og hún geti ekki beðið brúðkaupsdagsins.