Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Megi þjóðinni farnast vel nú þegar mest á reynir“

12.04.2020 - 21:06
Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvetur fólk til þess að hlýða tilmælum og leiðbeiningum almannavarna. Þetta kom fram í ávarpi í kvöld. Þetta er í fyrsta skipti í 25 ár sem forseti lýðveldisins flytur ávarp í sjónvarpi á öðrum degi en á nýársdag. Hann beindi orðum sínum til þeirra sem misst hafa ástvini vegna kórónuveirunnar og vottaði þeim samúð. Þá flutti hann fólki í viðkvæmum hópum baráttukveðjur. Að lokum sagði forsetinn: „Megi þjóðinni farnast vel nú þegar mest á reynir“.

Forsetinn talaði um þjóðareinkenni Íslendinga, sem segist hafa setninguna: Þetta reddast sem sín einkunnarorð. Þá hafi stundum verið sagt um Íslendinga að þeir séu þrasgjörn þjóð og síst af öllu húsbóndaholl. 

„Við fyrstu sín mætti ætla að slík þjóðareinkenni kæmu  okkur í koll þegar farsóttin skall á landinu af fullum þunga. En öðru nær. Upp til hópa hefur fólk hlýtt tilmælum og leiðbeiningum og hlýt ég að brýna landa mína að halda því striki,“ sagði Guðni.

Hann sagði að fólk hafi skipst á skoðunum um hvernig beri að bregðast við. Stjórnarandstaðan hafi þó sýnt sanngirni og ríkisstjórnin axlað ábyrgð. 

„Víst er að sérfróðum geti skjátlast eins og öðrum. Við erum hins vegar vel sett með einvala lið okkur í almanna- og veiruvörnum. Þau eru löngu orðin heimilisvinir, Alma landlæknir, Þórólfur sóttvarnalæknir og Víðir sem allir hlýði, yfirlögregluþjónn með meiru,“ sagði Guðni.

Hann sagði það aðdáunarvert hversu vel landsmenn hafi lagað sig að ástandinu. Hann hvatti fólk til að vera á varðbergi. Margir finni fyrir kvíða. Enn muni reyna á samstöðu þjóðarinnar. 

Þá óskaði forsetinn þjóðinni gleðilegra páska og sagði: „Megi þjóðinni farnast vel nú þegar mest á reynir. Megi henni farnast vel um alla framtíð.“

Síðast ávarp eftir snjóflóðið á Flateyri 1995

Afar óvenjulegt er að forseti Íslands flytji ávarp í Sjónvarpinu á öðrum degi en á nýársdag. Í grein Morgunblaðsins á miðvikudag kemur fram að síðast hafi Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, flutt ávarp í Sjónvarpinu 26. október 1995 eftir að snjóflóð féll á Flateyri. Hún flutti jafnframt ávarp í janúar sama ár þegar snjóflóð féll á Súðavík. Ólafur Ragnar Grímsson hafði annan hátt á í sinni forsetatíð og ávarpaði þjóðina með óbeinum hætti á blaðamannafundum í beinni útsendingu, til að mynda í apríl 2016 þegar hann synjaði þáverandi forsætisráðherra um heimild til þingrofs.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV