Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kvíði, ótti, ofbeldi og einmanaleiki fylgi faraldri

12.04.2020 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson - RÚV
Kvíði, áhyggjur, ótti, einmanaleiki og ofbeldi eru allt fylgikvillar kórónuveirufaraldursins, segir Alma Möller landlæknir. Hún hvetur fólk til þess að leita sér leiða til að takast á við kvíða og áhyggjur. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. Alma hvetur fólk til þess að gæta þess að fá nægan svefn. Góður svefn bæti minnið og efli ónæmiskerfið. Fullorðnir þurfi að sofa 7-8 klukkutíma á nóttu og ungmenni 8-10 tíma. 

Þá hvetur landlæknir fólk til þess njóta útiveru fyrri hluta dags og að forðast skjánotkun rétt fyrir svefninn. „Áfengi er afleitt svefnmeðal. Það rýrir gæði svefns,“ segir Alma. Jafnframt hvetur hún fólk til þess að drekka ekki kaffi eða aðra koffíndrykki nokkrum klukkutímum fyrir svefn. Þá bendir hún fólki á ráðleggingar vegna kvíða á vefnum www.covid.is undir hnappinum „Líðan okkar“. Jafnframt megi finna upplýsingar um svefn á vefnum www.heilsuvera.is.

Alma segir að faraldurinn sé á niðurleið. Lítið sé um samfélagslegt smit og það megi þakka fjölmörgum samfélagslegum aðgerðum sem gripið hefur verið til. „Við þurfum að flýta okkur hægt að aflétta öllum þeim aðgerðum sem við höfum gripið til, “ sagði Alma. Áfram þurfi fólk að forðast fjölmenni, vernda þá sem eru viðkvæmir, virða 2ja metra regluna eru og viðhafa hreinlæti.

Unnið að rannsókn á lýðheilsu á tímum kórónuveiru

Alma var spurð að því hvenær aðgerðir eins og samkomubann fer að bitna í of miklum mæli á andlegri heilsu þjóðarinnar. „Þessu er ekki hægt að svara á þessari stundu,“ segir Alma. Skammtímavandinn séu þau alvarlegu veikindi sem fylgi kórónuveirufaraldrinum. Þau vegi þyngst. Hins vegar sé einnig hugað að lýðheilsu. Áfram sé geðheilbrigðisþjónusta. Þá segir Alma að unnið sé að rannsókn á þessu. 

Hvetur fólk til að hlusta á þann sem er kvíðinn

Víðir Reynisson segir það almennt þannig að fólk sé kvíðið. Hluti af baráttunni við COVID-19 er að vinna með ótta og kvíða í samfélaginu. Allir geti tekið þátt í þessu og litið á það sem sitt framlag í að berjast við veiruna. „Við þurfum að tala um þetta, lyfta þessu upp þannig að það séu allir óhræddir við að ræða það að þeir séu óttaslegnir eða kvíðnir. Það skiptir mjög miklu máli að þetta sé eðlilegt. Við þurfum öll að vera tilbúin til að hlusta,“ segir Víðir. Þá hvetur hann þá sem glími við ótta og kvíða að hringja í 1717 eða hringja í heilsugæsluna.