Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hægt verður að safna undirskriftum rafrænt

12.04.2020 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Frumvarp um að safna megi meðmælum með forsetaframboði rafrænt var lagt fram á Alþingi í gær. Hingað til hefur meðmælum verið safnað með undirskriftum á blöðum. Vegna þeirra aðstæðna sem COVID-19 faraldurinn hefur skapað gæti orðið erfitt að safna undirskriftum með hefðbundnum hætti. Því er lagt til að hægt verði að safna meðmælum með rafrænum hætti. Það er gert svo auðveldara verði að safna og veita meðmæli heldur en annars kynni að verða af völdum faraldursins.

Fólk sem mælir með forsetaefni rafrænt verður að staðfesta hvert það er með því að nota örugga rafræna auðkenningu. Samkvæmt frumvarpinu gæti það tildæmis verið með styrktum Íslykli. Þjóðskrá fær líka heimild til að samkeyra meðmælendalista við þjóðskrá að beiðni yfirkjörstjórnar. Það má gera til að tryggja að meðmælandi sé í raun til og að hann hafi aldur, ríkisfangsstöðu og búsetu sem þarf til að geta mælt með forsetaefni. 

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lagði frumvarpið fram. Það birtist á vef Alþingis í gær. Samkvæmt því má dómsmálaráðherra gefa út reglugerð um að safna meðmælum með rafrænum hætti. Í þeirri reglugerð á að mæla fyrir um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té við söfnunina, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu gagna. Frumvarpið veitir Þjóðskrá Íslands einnig heimild til að kanna hvort að sá sem skrifar undir meðmæli við framboð sé kosningabær og uppfylli þar með uppfylli skilyrði til að geta mælt með framboði.

Breytingin verður þó aðeins tímabundin ef Alþingi samþykkir frumvarpið og á því aðeins við í þessum forsetakosningum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að í ljósi aðstæðna nú og þess að unnið er að heildarendurskoðun kosningalaga sé rétt að heimildin falli úr gildi um áramót.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV