Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framlengja harðara samkomubann í Eyjum

12.04.2020 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum hefur ákveðið að samkomubann, þar sem ekki mega fleiri en 10 koma saman,  gildi áfram til 19. apríl. Í tilkynningu frá aðgerðastjórn segir að þá verði liðnar fjórar vikur frá því að það var sett á. Markmiðið sé að hefta útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins og verja þannig mannslíf. Ekkert smit hefur greinst síðan 6. apríl í Vestmannaeyjum.

Aðgerðastjórn minnir á að við skimun Íslenskrar erfðagreiningar bættust mörg smit við dagana 3. til 5. apríl sem hefðu líklega greinst síðar hefði ekki verið skimað. Því sé of snemmt að fagna. Að öllum líkindum eiga fleiri eftir að greinast með staðfest smit á næstu dögum.  Samtals hafa hundrað og þrír greinst með veiruna í Eyjum, 45 hafa náð bata, en 58 eru með virk smit og eru í einangrun. 188 eru í sóttkví.