Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Fólk var líka svo þakklátt að sjá Ingvar“

Mynd: Eiríkur Hafdal / Hafdal Studio

„Fólk var líka svo þakklátt að sjá Ingvar“

12.04.2020 - 13:58

Höfundar

Upptaka frá geysivinsælli sýningu á Íslandsklukkunni verður á dagskrá RÚV 2 í kvöld. Benedikt Erlingsson var fyrir tíu árum fenginn til að leikstýra og vinna nýja leikgerð eftir bók Halldórs Laxness sem sett var upp í tilfefni af 60 ára afmæli Þjóðleikhússins.

Ilmur Kristjánsdóttir fór með hlutverk Jóns Grindvíkings, fyrst kvenna í uppsetningunni, sem þótti um margt nýstárleg þrátt fyrir klassískan efniviðinn. „Tíminn var þroskaður þarna, þetta var 2010 og við höfðum gengið í gegnum hrun,“ segir Benedikt, „þaðan kemur auðvitað hugmyndin að þessari sýningu. Við höfðum mjög djúpstæða þörf til að horfa þangað á þessum tíma.“ Hann segir aðferðina hafa mótast af frásagnarleikhúsi og framandgervingu. „Við vorum bara að segja skemmtilega sögu og nota öll tól sem við höfðum til að segja skemmtilega frá, leikgleðin fannst mér einkenna sýninguna,“ segir Ilmur og bætir við að mikið hafi verið um spuna á æfingunum. „Ef þú þarft að segja einhverjum sögu sem þú veist að þekkir hana, reynirðu að kasta nýju ljósi á hana. Það verður gleði og kankvísi í því.“

Leikmynd sýningarinnar var einföld og leikhúsgestir voru stöðugt minntir á afmæli Þjóðleikhússins sem var tilefni sýningarinnar. „Við römmuðum það inn með afmæliskransakökunni. Fólk var líka svo þakklátt að sjá Ingvar, það gat enginn annar fengið að leika Jón Hreggviðsson en hann,“ segir Benedikt. Fólki kom líka á óvart að kona skyldi leika Jón Grindvíking. „Mikið var það gaman að fá að leika hann. Fylliríssenurnar og það,“ segir Ilmur. Íslandsklukkan hefur oft verið sett upp og Benedikt segir það mikla og skemmtilega áskorun að takast á við slík verk. „Þar sem hluti áhorfenda þekkir fyrri uppsetningar og vill fá að sjá eitthvað nýtt, getur mátað við eldri sýningar.“

Íslandsklukkan er á dagskrá RÚV 2 klukkan 19:30 á páskadag og er hluti af leikhúsveislu RÚV og Þjóðleikhússins.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hellisbúinn frá Ströndum sem flúði til Hollands

Leiklist

„Stefán Karl stal senunni í hvert einasta skipti“

Leiklist

RÚV og Þjóðleikhúsið bjóða landsmönnum í leikhús

Bókmenntir

Listi Kiljunnar yfir öndvegisverk