Veikur maður fær leikhús að láni og segir sögu sína

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

Veikur maður fær leikhús að láni og segir sögu sína

11.04.2020 - 14:29

Höfundar

Fáar skáldsögur hafa skipað sér jafn stóran sess í þjóðarsálinni og Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Hún segir frá erfiðri en skrautlegri ævi Páls Ólafssonar sem glímir við geðraskanir og byggist á raunverulegum atburðum í fjölskyldu Einars. Leikgerð úr bókinni rataði á svið Þjóðleikhússins 2013.

Skáldsagan Englar alheimsins kom fyrst út árið 1993 við rífandi undirtektir og hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs tveimur árum síðar. Bókin segir sögu Páls Ólafssonar, frá barnæsku, glímunni við geðsjúkdóma, litríkri vist hans á Kleppi og allt til dauðadags. Kvikmynd byggð á skáldsögunni í leikstjórn Friðriks Þórs Friðriksonar var frumsýnd árið 2000 og naut hún mikillar hylli og þótti kvikmyndin gera skáldsögunni ástælu góð skil.

Í fyrsta sinn sem ný aðferð er notuð með íslenskum leikhópi

Þegar kom að því að setja verkið á svið árið 2013 vildi Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri sýna tryggð við bókina og kvikmyndina en þó fara aðra nýja leið með söguna. Leikgerðina vann hann með Símoni Birgissyni dramatúrg og studdust þeir við nýstárlega aðferð sem félagarnir höfðu þróað erlendis. Þetta var í fyrsta sinn sem hún var notuð með íslenskum leikhópi en nálgun þeirra heppnaðist svo vel að sýningin var sýnd fyrir fullu húsi á stóra sviðinu hátt í hundrað sinnum. Hún hlaut níu tilnefningar til Grímuverðlauna og hreppti þrenn verðlaun, meðal annars sem leikrit ársins

Leikhúsinu umturnað í vettvang sögunnar

Þegar leikstjórinn lítur til baka viðurkennir hann að mest hafi mætt á Atla Rafni sem lék Pál sjálfan í uppsetningunni en hann þurfti að vera í stöðugu sambandi við fólkið í salnum á meðan á sýningunni stóð. Fékk hann þannig áhorfendur til að upplifa geðveikina með sér sem verður illvígari með hverri mínútu. „Grunnhugmyndin var að við horfðum ekki á einhvern leika í lokuðu rými hvernig það er að vera geðveikur, heldur umbreyttum leikhúsinu í stað þar sem við fengjum innsýn inn í  hvernig það er þegar þetta gerist í fjölskyldu,“ segir Þorleifur. 

Atli Rafn dró vagninn

Sólveig Arnarsdóttir hrósar bróður sínum Þorleifi fyrir þá nýlundu í íslensku leikhúsi að hleypa listamönnum og aðstandendum sýningarinnar inn í sköpunarferlið í slíkum mæli. Hún segir alla leikarana hafa tekið þátt í því undir leiðsögn Þorleifs að skapa söguna og lýsir æfingum sem lifandi samtali þar sem alltaf eitthvað óvænt var borið á borð. En mest hrós á einn maður skilið samkvæmt henni. „Að öllum ólöstuðum stóð þetta kvöld og féll með performans Atla Rafns,“ tekur hún undir með bróður sínum. „Að fylgjast með honum ganga á hverju kvöldi inn í þessa sýningu af ótrúlegri einurð, leikgleði og alvöru og alltaf þegar maður hélt að það væri ekki hægt að ganga lengra fór hann kílómetra í viðbót og við eltum hann öll. Það þarf að búa til sérstaka stemningu til að leikhópur sé til í þetta og þennan vagn dró Atli.“

Skilningur skáldsins á því að vera aðstandandi

„Útgangspunkturinn var að hér var maður sem fékk Þjóðleikhúsið að láni til að segja sögu sína. Þetta var ekki einhvers konar endurvinnsla hugmynda sem áður höfðu birst í bók eða kvikmynd heldur var þetta nýr vinkill við skáldsöguna og efnið allt,“ segir Atli Rafn sem skjallar kollega sinn á móti og hrósar Sólveigu fyrir frammistöðu sína í sýningunni. Hann bendir einnig á að uppsetningin hafi notið afar góðs af þeim trausta grunni sem skáldsaga Einars sé. Þar skíni í gegn „skilningur skáldsins á aðstæðum fólks sem glímir við geðveiki,“ en eins og flestir vita byggist bók Einars að hluta á reynslu bróður hans heitins, Pálma, og glímu hans við geðsjúkdóma. 

Engla alheimsins þekkja margir úr æsku enda er hún enn lesin í flestum grunnskólum og menntaskólum landsins. Vafalaust hafa líka mörg auralaus ungmenni látið sig dreyma um að borða nægju sína á Grillinu á Hótel Sögu, þó ekki væri nema bara til að fá tækifæri til að segja hina frægu setningu: „Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax.“ Sú eftirminnilega sena úr bókinni, sem byggist á raunverulegum atburðum í lífi Pálma heitins, þykir sérstaklega vel útfærð í leikgerðinni.

Leikritið Englar alheimsins sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu árið 2013 er sýnt í kvöld, laugardaginn 11. apríl, á RÚV2 klukkan 19:00.

Tengdar fréttir

Leiklist

RÚV í samstarf við Þjóðleikhús um ritun leikverka

Leiklist

Þjóðarskútunni siglt í strand á sviði Þjóðleikhússins

Leiklist

RÚV og Þjóðleikhúsið bjóða landsmönnum í leikhús

Leiklist

Þorleifur Örn semur við Þjóðleikhúsið