Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Starfsfólk ISAVIA fær vinnu á Landspítalanum

11.04.2020 - 14:31
Mynd með færslu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Mynd: Lögreglan
Starfsfólk ISAVIA sem hefur lítið við að vera núna þegar ferðalög liggja nánast niðri vegna kórónuveirufaraldursins hefur fengið vinnu á Landspítalanum. Þetta kom fram í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Starfsfólk ISAVIA vinnur við öryggisgæslu, flutninga og birgðahald á spítalanum.

Páll hafði samband við forstjóra ISAVIA fyrir tæpum mánuði vegna þess að spítalann vantaði fleira starfsfólk við öryggisgæslu, flutninga og fleira. Páll segir það hafa legið í augum uppi að starfsfólk ISAVIA hafi reynslu af slíku. Forstjóri ISAVIA tók vel í tillöguna og ákveðið hafi verið að ráðast í verkefnið.

Páll segir að mikilvægt hafi verið að undirbúa þetta vel. Núna séu komnir starfsmenn ISAVIA inn á Landspítalann. Þeir eru merktir ISAVIA en sinna öryggismálum, flutningum og birgðahaldsverkefnum á spítalanum.