Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krefjast rúmra tíu milljarða af ríkinu

11.04.2020 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjö útgerðir krefja ríkið um samanlagt 10,2 milljarða króna í skaðabætur vegna úthlutunar veiðiheimilda í makríl á árunum 2011 til 2018. Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, breytti reglum um úthlutun árið 2011. Settur umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu 2014 að breytingarnar stönguðust á við lög og Hæstiréttur dæmdi ríkið skaðabótaskylt árið 2018.

Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, kemur fram hversu hárra fjárhæða sjö útgerðir krefjast í skaðabætur. Þær eru Eskja, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin.

Útgerðirnar krefjast samanlagt 10,2 milljarða króna. Þar af krefst Ísfélag Vestmannaeyja 3,9 milljarða króna og Eskja 2,1 milljarðs. Aðrar útgerðir gera minni kröfur.

Útgerðirnar krefjast annars vegar bóta vegna tímabilsins 2011 til 2014. Það tímabil var undir í dómi Hæstaréttar 2018. Að auki krefjast þær bóta vegna tímabilsins 2015 til 2018. Lögum var breytt árið 2019 og hefur úthlutun makrílkvóta síðan farið eftir þeim lögum. 

Nokkrir fjölmiðlar hafa krafið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið um afrit af stefnum sjávarútvegsfyrirtækjanna en ríkislögmaður hafnað því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði fyrr í þessum mánuði að Viðskiptablaðið ætti rétt á að fá stefnurnar og sömuleiðis Kjarninn.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega var því haldið fram að ráðuneytið hefði hafnað því að afhenda fjölmiðlum afrit af stefnum. Það var ekki rétt því það var ríkislögmaður sem hafnaði því.