Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk þarf að búa sig undir skjálfta nærri sex að stærð

11.04.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Veðurstofan hefur mælt ríflega átta þúsund skjálfta á Reykjanesskaga frá því í lok janúar. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofunni segir líkur á skjálfta um og rétt yfir 6 á stærð á Reykjanesi hafi aukist, sem muni hafa áhrif þar og á höfuðborgarsvæðinu. Fólk er beðið að huga að innanstokksmunum.

„Það hefur gerst áður að svona miklar jarðskjálftahrinur hafi riðið yfir Reykjanesskagann. Þá hafa orðið stærri skjálftar sem við verðum að búa okkur undir að geti orðið. Þá er ég að tala um skjálfta sem urðu í Brennisteinsfjöllum 1929 og 1968. Þetta eru skjálftar sem eru um og rétt yfir sex að stærð. Slíkir skjálftar munu hafa áhrif á höfuðborgarsvæðinu.“

Kristín segir ekki ljóst hvenær sá skjálfti myndi ríða yfir en líkur á skjálfta á þessari stærðargráðu hafi aukist. „Við getum ekki sagt hvort slíkur skjálfti komi á morgun eða hvort það eru einhver ár í hann.“

Suðurlandsskjálftarnir voru um 6,5 að stærð. „Hérna erum við að tala um skjálfta sem eru svona sex til sex komma þrír sem er aðeins minna. Það eru 15-20 kílómetrar frá höfuðborgarsvæðinu í þessar skjálftasprungur sem við höfum áhyggjur af,“ segir hún.

Kristín segir að langflest hús á Íslandi séu byggð til að þola skjálfta að þessari stærðargráðu en fólk ætti að nýta inniveruna núna til að huga að vörnum og viðbúnaði vegna jarðskjálfta. „Við viljum endilega hvetja til þess að fólk á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað á Reykjanesskaganum öllum hugi að innanstokksmunum og hugi að því hvernig er gengið frá innanhúss,“ segir Kristín jafnframt.

Jarðskjálfti 3,2 að stærð fannst vel í Grindavík rétt fyrir klukkan tíu í morgun.  Annar minni skjálfti varð á sömu slóðum rétt eftir klukkan hálf tíu. Íbúi sem fréttastofa ræddi við sagði að seinni skjálftinn hefði verið stuttur en að hans hefði orðið áþreifanlega vart. 

Frá því í lok janúar hafa mælst átta þúsund skjálftar á Reykjanesskaganum. Land hefur risið um 10 sentímetra, sem er aukning um allt að þrjá sentímetra á 10 dögum. „Það er enn þá að rísa. Það virðist vera ennþá kvikuinnstreymi inn í skorpuna á 3-4 kílómetra dýpi.“

Engin merki eru um að kvikan sé að færast nær yfirborðinu. Vísbendingar eru um nýtt kvikuinnskot vestast á Reykjanesskaganum. Þau eru því orðin þrjú. Kristín segir að þetta sé í fyrsta skipti sem kvikuinnskot sjást svona greinilega á mælum og gervitunglamyndum. Nýja kvikuinnskotið er á talsvert meira dýpi en kvikuinnskotin tvö við Þorbjörn.  

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kristín Jónsdóttir.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV