Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Eldgos í Krakatá

11.04.2020 - 00:38
Erlent · Asía · eldgos · Indónesía
Mynd með færslu
Gosmökkurinn sést vel úr vefmyndavél sem fylgist með Krakatá. Mynd: MAGMA Indonesia
Eldgos hófst í Krakatá í Indónesíu í dag með talsverðum látum. Hraun og aska reis hátt í loft við upphaf gossins í Anak Krakatá, sem þýðir barn Krakatá, og náði gosmökkurinn allt upp í 15 kílómetra hæð samkvæmt gervihnattamyndum.

New Zealand Herald hefur eftir sérfræðingum að þetta sé stærsta gos í fjallinu síðan 22. desember 2018 þegar sprengigos varð eftir að hluti fjallsins féll saman. Hrunið olli svo flóðbylgju sem varð hundruðum íbúa eyjunnar Jövu að bana. 

Vísindamenn við jarðfræðistofnun Indónesíu telja ekki mikla hættu á ferðum vegna gossins nú. Mögulega geti einhver aska fallið allt að tveimur kílómetrum frá fjallinu, og svo enn smærri aska fokið lengra. Gosið gæti haldið eitthvað áfram, en ekki er búist við því að krafturinn í því eigi eftir að aukast úr þessu.

Indónesar lýstu margir áhyggjum sínum á samfélagsmiðlum. Fólk birtir myndir af gosinu og segir alveg nóg að þurfa að kljást við kórónuveirufaraldurinn.