Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

17. júní hátíðarhöld að hluta til rafræn

11.04.2020 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Til skoðunar er að hafa hluta hátíðarhalda á þjóðhátíðardaginn rafrænan. Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi fyrr í dag að fólk ætti að búa sig undir að takmörk verði sett á stórar samkomur í sumar. Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, segir að ýmsar útfærslur séu til skoðunar, komi til þess að fjöldatakmarkanir verði á samkomum í sumar.

Starfsmenn menningarsviðs Reykjavíkurborgar hafa á undanförnum vikum verið í óða önn við að finna leiðir til að miðla menningu í samkomubanni. Til að mynda hefur verið sett upp ljósmyndasýning á strætóskýlum. Þá hefur málverkum verið stillt upp við glugga Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum svo fólk geti rýnt á verkin inn um glugga safnsins.

Reykjavíkurborg stendur fyrir mörgum fjölsóttum viðburðum. Hönnunarmars hefur verið frestað fram í júní og ákveðið hefur verið að viðburðum Listahátíðar verði dreift yfir lengri tíma. Barnamenningarhátíð verður ekki í þessum mánuði eins og til stóð. Arna Schram er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

„Sömuleiðis er hérna hjá borginni verið að huga að 17. júní. Sá dagur fer hvergi en spurning hvernig hátíðarhöldum verður háttað. Það er verið að skoða ýmsar leiðir og hvort það eigi að breyta útfærslu. Hafa eitthvað rafrænt og jafnvel að breyta hátíðardagskránni með hliðsjón af þeim reglum sem verða þá í gildi,“ segir Arna.

Eruð þið nú þegar búin að slá út af borðinu skrúðgöngu og útileiktæki?

„Nei, það er ekki búið formlega að gera það. En það er alveg spurning hvort það verður hægt að halda svona göngu a.m.k. með hefðbundnu formi,“ segir Arna.

Hún vonast til að unnt verði að halda menningarnótt 22. ágúst nk. „En auðvitað erum við að skoða allt og jafnvel Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða í Reykjavík í desember 2020. Við höfum ákveðið að halda striki varðandi þau en maður veit samt aldrei. Það má segja að það sé ekkert rosalega gott skyggni núna,“ segir Arna.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV