Til eru ýmsar tegundir af pönki og pönkið á sér mikilvægan og ódauðlegan sess í tónlist, tísku og hvers kyns andófi. Hannyrðapönk sem heitir á ensku craftism er sérstakur angi af pönki sem fjallað verður um í fjórum þáttum á Rás 1 sem nefnast einfaldlega Hannyrðapönk. Þar útskýrir Sigrún Bragadóttir einn harðasti hannyrðapönkari landsins og umsjónamaður þáttarins flest það sem tengist pönkinu í handverkinu. Og þeir sem eru lélegir í saumaskap þurfa ekki að útiloka drauminn um að verða hannyrðapönkarar, til þess að vera gjaldgengur sem slíkur þarf alls ekki hæfileika á sviðinu til að byrja með. Mikilvægast er að vera tilbúinn til að láta gott af sér leiða og stuðla að því að hefðbundinni handavinnu sé fundið nýtt hlutverk.
Jón Gnarr er einn þeirra sem fann sig svo vel í hannyrðapönkinu sem unglingur að hann fór að breyta fötum sínum til að tolla almennilega í pönktískunni. Eins og margir pönkarar nældi hann saman rifinn klæðnað með öryggisnælum, krotaði á fötin sín og eftir að hann fann yfirgefna hundaól á ráfi um göturnar fyrir fór hann varla út úr húsi án þess að skarta henni enda voru pönkarar í glansmyndablöðum gjarnan með slíka um hálsinn.