Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tússaði nafn Ninu Haagen á gallabuxurnar sínar

Mynd: Samsett mynd / Facebook/Wikimedia commons

Tússaði nafn Ninu Haagen á gallabuxurnar sínar

10.04.2020 - 10:00

Höfundar

Þegar pönkið komst í algleymi á Íslandi fóru ungmenni í auknum mæli að breyta klæðnaði sínum til að tolla í tískunni. Sú iðja flokkast í dag sem hannyrðapönk. Jón Gnarr var hugmyndaríkur á sínum pönkárum og gekk hann um með hundaól og krassaði á buxurnar sínar.

Til eru ýmsar tegundir af pönki og pönkið á sér mikilvægan og ódauðlegan sess í tónlist, tísku og hvers kyns andófi. Hannyrðapönk sem heitir á ensku craftism er sérstakur angi af pönki sem fjallað verður um í fjórum þáttum á Rás 1 sem nefnast einfaldlega Hannyrðapönk. Þar útskýrir Sigrún Bragadóttir einn harðasti hannyrðapönkari landsins og umsjónamaður þáttarins flest það sem tengist pönkinu í handverkinu. Og þeir sem eru lélegir í saumaskap þurfa ekki að útiloka drauminn um að verða hannyrðapönkarar, til þess að vera gjaldgengur sem slíkur þarf alls ekki hæfileika á sviðinu til að byrja með. Mikilvægast er að vera tilbúinn til að láta gott af sér leiða og stuðla að því að hefðbundinni handavinnu sé fundið nýtt hlutverk. 

Jón Gnarr er einn þeirra sem fann sig svo vel í hannyrðapönkinu sem unglingur að hann fór að breyta fötum sínum til að tolla almennilega í pönktískunni. Eins og margir pönkarar nældi hann saman rifinn klæðnað með öryggisnælum, krotaði á fötin sín og eftir að hann fann yfirgefna hundaól á ráfi um göturnar fyrir fór hann varla út úr húsi án þess að skarta henni enda voru pönkarar í glansmyndablöðum gjarnan með slíka um hálsinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Hundaólar eru mikilvægur hluti af pönktísku eins og sjá má á þessu unga fólki

Þegar hann síðar komst að því að það væri verið að framleiða hundaólar sem ekki væri ætlaðar hundum fannst honum hins vegar pönkið aðeins tekið úr tískunni. „Ég fór til London og kom inn í pönkbúð sem seldi hálsólar sem voru eins og hundaólar en þær voru ekki framleiddar fyrir hunda heldur fólk. Þetta var ekki pönk, fannst mér. Hefði ég verið að leita mér að hundaól hefði ég farið í gæludýraverslun.“

Mennirnir með hundaólarnar voru ekki þeir einu sem voru Jóni innblástur. Platónskt ástarsamband hans og Ninu Haagen hófst til að mynda þegar hann fletti í gegnum þýska tímaritið Bravó. „Það var plakat af henni í Bravó að reykja með svartan varalit í munnvikinu. Mér fannst hún alveg svakalega töff. Hún fékk sess á gallabuxunum mínum, ég skrifaði með tússpenna Nina Haagen.“

Hægt er að hlusta á fyrsta þátt Hannyrðapönks í útvarpsspilara RÚV. Næstu þættir eru í dag, laugardag og annan í páskum klukkan 14 á Rás 1.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Prjónaðir ljósastaurar á Blönduósi

Hönnun

Hlýtt og kalt á prjónunum