Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þúsund vígamenn felldir við Tsjad-vatn

10.04.2020 - 04:49
Erlent · Afríka · boko haram · Hryðjuverk · Tsjad
epa04653431 A photograph made available 08 March 2015 shows the Nigerian army patroling in Chibok, Borno State, North Eastern Nigeria 05 March 2015.  According to reports two busy markets and a bus station wre the targets of an alleged Boko Haram suicide
Róstusamt er í Nígeríu, þar sem stjórnvöld glíma við bæði glæpagengi og hryðjuverkasamtök sem víla ekki fyrir sér að fella mann og annan til að ná sínu fram.  Mynd: EPA
Stjórnarherinn í Tsjad kveðst hafa fellt eitt þúsund vígamenn úr Boko Haram við Tsjad-vatn. 52 hermenn létu lífið í aðgerðinni að sögn Azem Bermendoa Agouna, talsmanns hersins. 

Hernaðaraðgerðin hófst 31. mars að sögn Al Jazeera. Síðan þá hafa þúsund hryðjuverkamenn verið drepnir og 50 vélbátar eyðilagðir. Aðgerðinni lauk svo á miðvikudag þegar vígamennirnir höfðu verið hraktir úr landi. Ráðist var að þeim eftir að nærri 100 hermenn voru drepnir í árás Boko Haram í mars. 

Ahmed Idris, blaðamaður Al Jazeera í Nígeríu, segir svipaðri aðgerð hafa verið beint gegn Boko Haram árið 2015. Fjöldi vígamanna var drepinn, en síðan þá hefur þeim tekist að safna liði og orðið fjölda almennra borgara að bana. 

Tsjad-vatn liggur að landamærum Níger, Nígeríu, Kamerún og Tsjad. Vígamenn hafa herjað á þorp við vesturströnd vatnsins. Þangað sigla þeir frá norðaustanverðri Nígeríu, þar sem Boko Haram hefur valdið miklu tjóni síðan árið 2009. Tugþúsundir hafa látið lífið af völdum hryðjuverkasamtakanna og nærri tvær milljónir hafa orðið að flýja heimili sín.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV