Rannsaka hvort að konan hafi skapað hættu

10.04.2020 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir það mikil vonbrigði að einn meðlima bakvarðasveitar stofnunarinnar virðist hafa villt á sér heimildir. Hann segir að þetta sé algjörlega óþarft áfall ofan í þá erfiðleika sem starfsfólk hefur tekist á við vegna COVID-smits á dvalarheimilinu Bergi. Unnið er að því að rannsaka hvað gerðist og hvaða hætta kann að hafa skapast.

Einn starfsmanna bakvarðasveitarinnar sem kom til Vestfjarða á mánudag til starfa á dvalarheimilinu Bjargi var handtekinn í morgun, grunaður um að hafa logið til um menntun sína. Viðkomandi vann þrjár næturvaktir áður en til handtökunnar kom. Starfsmanninum var sleppt að loknum yfirheyrslum í dag og verður rannsókn málsins haldið áfram.

Gripið til víðtækra varúðarráðstafana

Gylfi segist hafa fengið nokkrar ábendingar um að starfsmaðurinn hefði ekki þá menntun sem hann sagðist hafa. Nú er verið að fara yfir störf hennar. „Það er verið að skoða það núna, spóla til baka og sjá hvað fór fram og hvaða hætta kann að hafa skapast. Við höfum gripið til víðtækra varúðarráðstafana. Til dæmis munum við senda alla bakvarðasveitina í sýnatöku og höfum flutt bakvarðasveitina úr því húsnæði sem hún hefur gist í annað húsnæði og margt fleira til að tryggja það að ekkert geti farið úrskeiðis hérna. “

Ekki er ljóst hversu marga heimilismenn á dvalarheimilinu konan var í samskiptum við. Gylfi segir að það kunni að vera um helmingur. Vitað er hvaða verkefni henni voru sett fyrir en ekki er fylgst með starfsfólki öllum stundum. „Margt af því sem er gert á hjúkrunarheimilum getur valdið skaða ef það er ekki í höndum fagmenntaðs fólks. Það er þess vegna sem fagmenntunin er til og menntakerfið í heild sinni. Það eru þá atriði eins og lyfjagjafir og þess háttar. Í þessu tilviki eru það ennþá vandasamari aðstæður vegna þess að um er að ræða að hluta til COVID-smitaða íbúa á hjúkrunarheimilinu þannig að það er ennþá ríkari ástæða til þess að krefjast þess að fólk kunni til verka.“

Ráðin inn í miklum flýti vegna COVID-19

Í fréttatilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrr í dag var tekið fram að ekki væri hægt að útiloka að konan væri útsett fyrir COVID-19 smiti. „Við gátum ekki staðfest þá fagmenntun sem viðkomandi taldi sig hafa þannig að við getum ekki treyst því að hún hafi þá menntun og kunnáttu sem krafist er til að fara í og úr hlífðarbúnaði á öruggan hátt. Það er meðal annars það sem liggur til grundvallar,“ segir Gylfi.

Gylfi segir að skýrar reglur séu um hvernig kallað sé eftir gögnum um menntun starfsfólks sem kemur til starfa á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. „Við höfðum kallað eftir ýmsum skjölum og við fengum töluvert af skjölum. Það verður að segjast í þessu samhengi að þetta var unnið með skömmum fyrirvara og miklum hraða því við vorum að safna saman fólki í fordæmalausum aðstæðum til að fara um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Við fengum fullt af skjölum. Svo kom í ljós að þau voru kannski öll sannleikanum samkvæmt, eða við höfðum grun um það, og þess vegna viljum við ekki tefla á neina tvísýnu um það.“

Algjörlega óþarft áfall

Starfsfólk hefur undanfarið verið að vinna úr COVID-19 smiti á dvalarheimilinu. Gylfi segir tíðindin slæm. „Við erum bara vonsvikin. Við höfum verið að leggja okkur öll fram síðustu daga og vikur við koma þessum málum öllum á hreint, á réttan kjöl. Svo kemur þetta sem enn eitt áfallið, algjörlega óþarft, og þetta er bara leiðinlegt.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi