Laugarnar ekki tæmdar í samkomubanni

10.04.2020 - 06:02
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Vatn er í öllum sundlaugum í Reykjavík þrátt fyrir að nú sé samkomubann og laugarnar lokaðar. Búið er að lækka hitann á vatninu og sömuleiðis að minnka klórinn á meðan engir eru sundgestirnir.

Það þarf mikil kerfi til að láta heila sundlaug ganga og langan tíma tekur að slökkva á þeim og sömuleiðis að kveikja á aftur, að sögn Steinþórs Einarssonar, skrifstofustjóra íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar. 

Hann segir að líklega sé ódýrara að slökkva á kerfunum meðan samkomubannið varir en að það sé líka ýmislegt sem geti komið upp á ef slökkt er á þeim. Þá taki heillangan tíma að fylla stóra sundlaug af vatni og það þurfi að gera eftir kúnstarinnar reglum og hægan máta, annars sé hætta á skemmdum. 

Það er engin lognmolla í sundmiðstöðvum borgarinnar þó að samkomubann sé í gildi. Steinþór segir að tíminn sé nýttur vel og að fjöldi iðnaðarmanna sé að störfum. Þá nýtir starfsfólkið tímann í ýmis verkefni, svo sem þrif.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi