Forseti Úganda gerir heimaæfingamyndband

10.04.2020 - 08:10
Mynd með færslu
Yoweri Museveni, forseti Úganda. Mynd:
Eftir að hafa bannað landsmönnum að æfa úti vegna kórónuveirufaraldursins sendi Yoweri Museveni, forseti Úganda, frá sér myndband á Twitter með inniæfingum. Museveni, sem er hálfáttræður, sést þar klæddur gráum íþróttafötum á forsetaskrifstofunni. Hann segist í myndbandinu nota skrifstofu sína til æfinga, eða herbergið sitt heima.

Að sjálfsögðu hefur hann æfingamyndbandið með upphitun, þar sem hann skokkar milli enda á rúmgóðri teppalagðri skrifstofunni. Eftir skokkið gerir hann armbeygjur, sem verða alls 30 talsins samkvæmt myndbandinu. Loks hvetur forsetinn landsmenn til þess að skokka heima.

Það gæti reynst stórum hluta landsmanna erfitt. Al Jazeera greinir frá því að samkvæmt hagstofu Úganda búa ríflega 70 prósent höfuðborgarbúa í Kampala í eins herbergis íbúðum með nokkrum öðrum. 

Líkt og víðast hvar í heiminum er einhvers konar bann við samkomum eða ferðum fólks í Úganda. Þar mega landsmenn þó fara gangandi í fjögurra manna hópum, eða færri. Aðrar samgöngur eru bannaðar og útgöngubann yfir nóttina. 53 tilfelli COVID-19 hafa greinst í landinu til þessa. 

Samgöngubannið er einkar hart í Úganda. Það nær yfir alla, jafnvel neyðartilvik. Því hafa nokkrar þungaðar konur látið lífið við það að reyna að komast á fæðingardeildir sjúkrahúsa í landinu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV