Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Apple og Google taka höndum saman gegn COVID-19

10.04.2020 - 22:55
epaselect epa05850403 Spectators use their smartphones at the fashion show of Russian designer Oksana Fedorova during the 2017/2018 Fall/Winter Mercedes-Benz Fashion Week Russia in Moscow, Russia, 15 March 2017. The event runs from 12 to 17 March.  EPA
 Mynd: EPA
Tæknirisarnir Apple og Google vinna nú saman með yfirvöldum við smitrakningu með aðstoð Bluetooth tækninnar. CNN greinir frá. Tæknin verður notuð til þess að sjá hverjir voru nálægt einhverjum sem hefur smitast af COVID-19. Sameiginlegt app fyrirtækjanna verður klárt fyrir bæði iOS og Android stýrikerfi í næsta mánuði.

Þar getur snjallsímanotandi sem greinst hefur með kórónuveiruna merkt sig veikan í appinu, og þá fá yfirvöld yfirlit yfir það hvaða tæki hafa verið nálægt hans undanfarna daga. Fólk sem hefur verið nálægt hinum smitaða síðustu daga, og er einnig með appið í snjallsímanum sínum, fær svo skilaboð um að hafa verið í návígi við einhvern sem hefur greinst með COVID-19.

Sérfræðingar í persónuverndarmálum hafa áhyggjur af notkun búnaðar sem rekur ferðir fólks. Þeir óttast að hægt verði að nota það til þess að fylgjast með fólki eftir að faraldrinum lýkur. Apple og Google segjast einblína á persónuvernd við vinnu sína að appinu. Notendur verða að veita skýrt samþykki til þess að appið virki, og upplýsingum um ferðir einstaklinga verður ekki safnað segir í yfirlýsingu tæknirisanna. Jafnframt segjast þau ætla að birta upplýsingar um vinnuna við verkið opinberlega svo hægt sé að fylgjast náið með.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV