Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tveir sexmenninganna ákærðir fyrir símasmygl

09.04.2020 - 15:33
Mynd með færslu
James Hatuikulipi, Bernhard Esau og Sakesu Sacky Shanghala. Mynd: The Namibian
James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarmaður Fischor í Namibíu, og Pius Mwatelulo, hafa verið ákærðir fyrir að smygla tveimur farsímum, hleðslutækjum og snjallúrum inn í fangelsið í Windhoek. Þeir voru ekki viðstaddir þegar ákæran var þingfest vegna kórónuveirufaraldursins..

Á vef Namibian kemur fram að málinu hafi verið frestað til 14. maí.

Saksóknari lagðist gegn því að þeim yrði veitt lausn gegn tryggingu þar sem líkur væru á að þeir myndu trufla rannsókn málsins.  Upp komst um símaeign mannanna þegar í ljós kom að þeir höfðu verið á Twitter.

Hatuikulipi og Mwatelulo eru í hóp sexmenninga sem hafa verið ákærðir fyrir spillingu og samsæri um spillingu. Þeir voru handteknir eftir umfjöllun um Samherjaskjölin svokölluðu og hafa setið í varðhaldi í meira en fjóra mánuði. 

Mönnunum sex er öllum gefið að sök að hafa tekið á móti greiðslum sem nema að minnsta kosti 103 milljónum namibíudollara frá sjávarútvegsfyrirtækjunum Mermaria Seafod Namibia og Esja Seafood sem bæði eru í eigu Íslendinga. Greiðslurnar ná yfir tímabilið 2014 til 2019 og áttu  að tryggja áframhaldandi fiskikvóta fyrir bæði fyrirtækin. 

Réttarhöldin í því máli eiga að hefjast 23.apríl.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV