RÚV í samstarf við Þjóðleikhús um ritun leikverka

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

RÚV í samstarf við Þjóðleikhús um ritun leikverka

09.04.2020 - 11:05

Höfundar

Þjóðleikhúsið hleypir af stokkunum nýju Hádegisleikhúsi næsta haust í samstarfi við RÚV. Auglýst er eftir handritum að fjórum nýjum íslenskum verkum sem verða frumflutt í Þjóðleikhúskjallaranum og tekin upp til sýninga í Sunnudagsleikhúsi RÚV 2021.

Hádegisleikhúsið verður starfrækt í Þjóðleikhúskjallaranum, þar sem gestir njóta leiksýningar um leið  og þeir snæða hádegisverð. Fjórar leiksýningar verða frumsýndar þar á næsta leikári.

Auglýst er eftir handritum að fjórum nýjum íslenskum verkum sem verða frumflutt í Hádegisleikhúsinu og tekin upp til sýninga í Sunnudagsleikhúsi RÚV sem hleypt verður af stokkunum á árinu 2021. 

Óskað er eftir handritum eða ítarlegum hugmyndum að verkum sem eru 20-25 mínútur að lengd. Fjögur verkefni verða valin til þróunar og sýninga. Óskað er eftir tilbúnum handritum eða ítarlegum hugmyndum að leikverkum fyrir einn til þrjá leikara. Æskilegt er að verkið krefjist ekki flókinnar umgjarðar.

Fjögurra manna nefnd mun velja handritin en í henni sitja Hrafnhildur Hagalín, formaður, Ólafur Egill Egilsson, Skarphéðinn Guðmundsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir. Frestur til að skila inn handritum og hugmyndum að verkum er til 15. maí.