Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mjög vel sett með þessari höfðinglegu gjöf“

09.04.2020 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítalinn
Kristinn Sigvaldason, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi, segir að þær 17 gjörgæsluöndunarvélar sem spítalinn fékk að gjöf frá 14 ónafngreindum fyrirtækjum komi sér afskaplega vel. Þetta sé mjög höfðinglegt og deildin geti nú brugðist við ef ástandið versnar mjög mikið.

Öndunarvélarnar sem spítalinn fékk í dag eru af þýskri gerð en eru framleiddar í Kína. Ellefu eru þegar komnar til landsins og von er á sex til viðbótar í næstu viku. 

Eftir að kórónuveirufaraldurinn breiddist út um Evrópu og til Bandaríkjanna hafa gjörgæsluvélar orðið mjög eftirsóttar, það er nánast slegist um þær. Í Bretlandi hafa heilbrigðisyfirvöld til að mynda verið í vandræðum með að fá svona tæki erlendis frá.  Þar eru til um tíu þúsund öndunarvélar en heilbrigðisráðherra landsins hefur sagt að tryggja þurfi að átján þúsund vélar séu til taks þegar farsóttin nær hámarki. 

Landspítalinn átti 26 gjörgæsluöndunarvélar í upphafi faraldursins. Spítalinn fékk síðan 15 hátækniöndunarvélar frá Bandaríkjunum að gjöf í lok síðasta mánaðar, þar af voru þrjár þeirra  gjörgæsluöndunarvélar.

Kristinn Sigvaldason, yfirlæknir á gjörgæsludeildinni í Fossvogi, segir að nú þurfi að fara yfir þessar nýju vélar og þeim fylgi rekstrarvörur sem þurfi að skoða. „En við erum orðin mjög vel sett með þessari höfðinglegu gjöf og getum brugðist við ef ástandið versnar mikið.“

Hann segir álagið á gjörgæsludeildinni mikið en gjörgæslurýmum hefur verið fjölgað um helming, eru nú átján.  Gert er ráð fyrir að gjörgæsludeildin við Hringbraut taki við sjúklingum þaðan þegar aðstaðan er fullnýtt.

Samkvæmt síðustu tölum á vef Landspítalans eru nú níu á gjörgæsludeild spítalans, þar af 7 í öndunarvél  Tekist hefur að losa fimm úr öndunarvél en alls hafa 13 þurft á öndunarvél að halda. Þetta þykir nokkuð gott miðað við við það sem þekkist erlendis .   Gangi verstu spár eftir gætu 19 þurft að leggjast inn á gjörgæsludeildina í næstu viku þótt faraldurinn hafi náð hámarki og sé á niðurleið.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á stöðufundi almannavarna í dag að öll ríki væru í kapphlaupi um þessar vörur og að hann vissi að á bakvið gjöfina væri þrotlaus vinna, mjög mikil útsjónarsemi og harðfylgi við að koma þessum búnaði til landsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur undirbúningur staðið lengi og nýta þurfti persónuleg tengsl í Kína til að passa upp á að vélarnar rötuðu örugglega til landsins.

Á vef spítalans er haft eftir Sigurbergi Kárasyni, yfirlækni á gjörgæsludeildinni við Hringbraut, að öndunarvélarnar sem spítalinn fékk í dag uppfylli allar kröfur um meðferð gjörgæslusjúklinga.

Auk vélanna fékk spítalinn 6.500 svokallaðar N95 sóttvarnargrímur, 1.000 varnargalla, 2.500 varnargleraugu og 140 þúsund veirupinna sem talið er að dugi heilbrigðiskerfinu hér á landi um fyrirséða framtíð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV