Ína - Skúli Thoroddsen

Mynd: Forlagið/Skúli Thoroddsen / Forlagið/Skúli Thoroddsen

Ína - Skúli Thoroddsen

09.04.2020 - 14:27

Höfundar

Skúli Thoroddsen var á ferðalagi í Öskju og rakst á vörðu sem þýskur listmálari, Ina von Grumbkow, hafði reist við Öskjuvatn til minningar um unnusta sinn, Walter von Knebel, sem árið áður hafði drukkað í vatninu ásamt félaga sínum, málaranum Max Rudloff. Ina skrifaði bók um ferðalag sitt og byggir Skúli Thoroddsen sögu sína að miklu leyti á lýsingu Inu á ferðinni sem lá vítt og breitt um Ísland.

Í byrjun 19. aldar var mikil gerjun í vísindum og fræðum í Evrópu ekki síst í jarðvísindum og þótti Ísland afar áhugavert svæði til rannsókna. Árið 1907 ferðaðist ungur jarðfræðingur, Walter von Knebel, hingað til lands ásamt félaga sínum, Max Rudloff. Þeir höfðu meðferðis bát og slógu upp búðum við Öskjuvatn. Dag einn sigldu þeir út á vatnið og hefur ekkert til þeirra spurst síðan  þrátt fyrir mikla leit. Unnusta Walters kom ári síðar til Íslands ásamt jarðfræðingnum Hans Reck. Þau ferðuðust vítt og breitt um landið og dvöldu einnig um hríð í Öskju. Efrtirgrennslan þeirra leiddi ekkert nýtt í ljós í tengslum við hvarf þeirra von Knebel og Rudloff. Sem einhvers konar hinsta kveðja lét Ína reisa vörðu með nöfnum þeirra við Öskjuvatn til minningar. Skömmu eftir heimkomuna til Þýskalands  skrifaði Ína bók um dvöl sína á Íslandi. Sú bók kom út í íslenskri þýðingu Haraldar Sigurðssonar árið 1982 og heitir Ísafold. Ferðamyndir frá Íslandi. Hún giftist síðar Hans Reck og fylgdi honum  í rannsóknarleiðangur til Afríku og skrifaði um það bækur.

„Ég ákvað að sleppa því að segja einhvern sannleika heldur vildi ég segja sögu eins og ég hélt að hún gæti kannski hafa verið,“ segir Skúli Thoroddsen meðal annars um skáldsögu sína Ína. „Auðvitað fylgi ég leiðarlýsingu Ínu sjálfrar og kannski er ég að krydda þær með mínum eigin upplifunum og tengja hennar tilfinningar við landið, hvaða áhrif landið kannski hafði á hana til að ná sér út úr sorg og söknuði.“

Ína eftir Skúla Thoroddsen er tilraun til að tengja sögu lands og lýðs á Íslandi við hræringar í raun - og hugvísindum í Evrópu. Skúli leggur sig einnig fram um tengja menningu, einkum bókmenntir og málaralist við rannsóknir jarðvísindamanna í sögulegu samhengi.

Viðmælendur í þættinum Bók vikunnar eru þau Árni Hjartarson jarðfræðingur og Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar. Hlustið hér:

Mynd: Sæmundur / Sæmundur