Hvetur fólk til að verða ekki værukært

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Fimmtíu og fjögur COVID-19 smit hafa verið greind á Vestfjörðum, þar á meðal á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Tveir Vestfirðingar hafa látist úr sjúkdómnum. Mikið hefur mætt á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hvetur Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar, landsmenn til að verða ekki værukærir því faraldurinn geti haft skelfilegar afleiðingar.

„Síðustu dagar hafa verið okkur erfiðir, sorglegir og lærdómsríkir í senn. Eftir hríðarveðrið síðustu daga, sýnist mér sólin vera að skína í gegnum skýin núna, sem er táknrænt,“ sagði Gylfi á upplýsingafundi Almannavarna í dag. 

Liðsauki barst á hjúkrunarheimilið á mánudag og sett hefur verið upp sérstök COVID-19 deild. Gylfi segir að starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar hafi staðið sig eins og hetjur og að heilbrigðiskerfið allt hafi komið til hjálpar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hafi sent þeim skeyti og starfsmannafélög og félagasamtök hafi safnað milljónum króna til að kaupa tæki á allar starfsstöðvar. „Við höfum fengið bakvarðasveit með þyrlu á sama tíma og það voru rýmingar vegna snjóflóðahættu, sama dag komu tvær sjúkraflugvélar að sunnan til þess að sækja bráðveika sjúklinga. Heiðar lokuðust vegna fannfergis. Þetta hefur á köflum verið svona eins og sjónvarpsþáttaröð af dýrustu gerð,“ sagði Gylfi á fundinum í dag. 

Mynd með færslu
Rætt var við Gylfa Ólafsson í gegnum fjarfundabúnað á upplýsingafundinum í dag. Mynd: Lögreglan

Segir skellinn hafa læðst aftan að Vestfirðingum

Fyrir tólf dögum var umræða um það á Vestfjörðum hvort það væri áhyggjuefni hve fá smit hefðu greinst og hvort það gæti þýtt að takmarkanir yrðu lengur þar en annars staðar, því veiran hefði ekki náð sér á strik, sagði Gylfi. Örstuttu síðar kom faraldurinn vestur. „Skellurinn læddist aftan að okkur og sló þar sem síst skyldi, hjá veikasta fólkinu inni á hjúkrunarheimiinu. Mín skilboð til landsmanna eru þvi þessi: ekki verða værukær. Þegar þetta gerist þá gerist það með ógnarhraða og getur haft skelfilegar afleiðingar. Sofnum ekki á verðinum.“

Skimun hefst eftir páska

Eftir páska hefst skimun fyrir sjúkdómnum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar á Ísafirði og Patreksfirði. Þá hefur verið tekið töluvert af sýnum á vegum heilbrigðisstofnunarinnar og segir Gylfi að smitrakning gangi vel. „Ástandið er stöðugt og ég held að við höfum staðið okkur ansi vel þó að áfallið hafi verið stórt og erfitt.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi