Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur áhyggjur af stöðu fjölmiðla

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, kveðst hafa áhyggjur af stöðu fjölmiðla, hjá þeim, líkt og víðar, sé tekjufall og að stjórnvöld verði að taka tillit til þess. Ekki hafa verið kynntar neinar sértækar aðgerðir sem beinast að stöðu fjölmiðla vegna COVID-19 faraldursins.

Menntamálaráðherra var spurð að því í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld hvort að slíkar aðgerðir yrðu hluti af næstu viðbragðsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hún sagði að til umfjöllunar væri frumvarp sem fæli í sér stuðning við einkarekna fjölmiðla og hún legði mikla áherslu að væri klárað. „Þar er búið að setja um 400 milljónir til þess að styðja við einkarekna fjölmiðla. Ég veit til þess að nú er verið að skrifa nefndarálitið, þannig að ég legg áherslu á að það klárist. Hins vegar er það svo að staða fjölmiðla er mjög erfið um allan heim og að sama skapi er mikill lestur og fólk fylgist gríðarlega vel með. Þannig að ég hef alltaf verið talskona þess að styðja við einkarekna fjölmiðla og mun halda áfram að gera það,“ sagði Lilja. 

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sagði í dag að enn ætti eftir að fara fram öll pólitísk umræða um frumvarpið. 

Fjölmiðlafólk hefur áhyggjur af stöðunni og vill að það verði brugðist við strax. Hverju svarar þú því? „Ég svara því til að þetta frumvarp er búið að vera til umfjöllunar og allar gestakomur eru búnar hjá nefndinni og mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að klára það, en ég útiloka hins vegar ekkert í þessu vegna þess að við vitum að fjölmiðlar skipta mjög miklu máli, að það sé gagnrýnin umræða og að við séum að ræða málefni líðandi stundar, sérstaklega á tímum farsóttar þannig að mér finnst mjög brýnt að við komumst til botns í þessu máli og að við klárum þetta.“

Hefur þú sjálf áhyggjur af stöðu fjölmiðla? „Já, ég hef það og ég hef verið í sambandi við þá marga og ég skil mjög vel í hvaða stöðu þeir eru. Við sjáum að auglýsingatekjur, bara eins og víða, það er tekjufall víða og stjórnvöld verða að taka tillit til þess.“