Framkvæmdir að hefjast við nýjan leikskóla á Akureyri

09.04.2020 - 10:28
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Öll börn 12 mánaða og eldri ættu að komast inn á leikskóla á Akureyri frá og með hausti 2021. Fyrsta skóflustungan að nýjum sjö deilda leikskóla var tekin í morgun. Bæjarstjórinn útilokar ekki frekari framkvæmdir.

Kostar tæpan milljarð

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á svæði Glerárskóla á Akureyri undanfarin misseri. Auk byggingar nýs leikskóla er nú unnið að endurbótum á skólanum og íþróttahúsinu. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri segir bæinn hafa fengið gott tilboð í verkefnið. 

„Fjárhagsáætlun hljóðar upp á tæpan milljarð, tilboðið hljóðar upp á rúmar 800 milljónir þannig að við erum með gott tilboð og ég tel að þetta séu góð verð sem við erum að fá á þessum tímum,“ segir Ásthildur.

Geta tekið við 144 börnum

Nýr leikskóli mun geta tekið við alt að 144 börnum, allt niður í 12 mánaða gömul. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs segir mikilvægt að fá leikskóla sem tekur inn börn á þessum aldri.

„Það er verið að verða við óskum foreldra vegna lengingar fæðingarorlofs að geta þá tekið við þeim börnum sem að þurfa annaðhvort að fara til dagforeldra eða þá í leikskóla að þau geti þá farið inn í leikskóla á þeim tímamótum,“ segir Karl.

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi