Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Deiliskipulag umdeildra smáhýsa fellt úr gildi

09.04.2020 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun borgarráðs þar sem samþykkt var að breyta deiliskipulagi Klettasvæðis við Reykjavíkurhöfn. Til stóð að koma þar fyrir fimm smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar.

Smáhýsin hafa verið umdeild og gerðu fyrrverandi fíklar athugasemdir við staðsetningu þeirra. Þau yrðu mitt á milli áfangaheimilis og AA-fundarsala.

Verktakafyrirtækið Þingvangur kærði breytinguna til nefndarinnar. Í kærunni segir fyrirtækið að Reykjavíkurborg hafi leitast við að slá ryki í augu þeirra sem gerðu athugasemdir við tillöguna. Borgin hafi fullyrt að þetta væri ekki hefðbundin búseta heldur tímabundið úrræði. Það standist ekki skoðun. Það eina sem kynni að vera tímabundið væri búseta hvers og eins skjólstæðings þar sem einn tæki við af öðrum. 

Borgin hélt sig við þá skýringu að smáhýsinu væru tímabundið búsetuúrræði og að ekki væri gert ráð fyrir varanlegri búsetu. Þá benti hún á að þetta væru færanlegar byggingar. 

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að smáhýsin séu ótvírætt ætluð til íbúðarnota. Með breytingu sem gerð var á aðalskipulagi svæðisins í ágúst fyrir þremur árum hafi heimild til íbúðaruppbyggingar verið felld brott.  Því væru smáhýsin ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Var ákvörðun borgarráðs því felld úr gildi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV