Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Um þriðjungur þjóðarinnar er með smitrakningaappið

08.04.2020 - 13:04
Mynd með færslu
Alma Möller landlæknir og Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins.  Mynd: Lögreglan - Ljósmynd
Smitrakningateymið hefur margfaldast að vöxtum á rúmlega mánuði. Forsvarsmaður teymisins segir að um þriðjungur þjóðarinnar hafi sótt smitrakningaappið í símann sinn. 

Þegar farsóttin braust fyrst út hér á landi, í lok febrúar, setti sóttvarnarlæknir saman smitrakningarteymi sex starfsmanna. Það teymi hefur margfaldast að umfangi á rúmlega einum mánuði, að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, forsvarsmanns teymisins, nú séu 52 í teyminu.

Hann segir að mannskapurinn gangi á fjórum vöktum og starfi frá kl. 8 á morgnana til 11 á kvöldin. 

„Týpískur dagur er þannig að við fáum upplýsingar reglulega yfir daginn, frá rannsóknarstofunum, Landspítalanum og DeCode um einstaklinga sem hafa smitast og eru semsagt jákvæðir. Og þá byrjum við á því að hjúkrunarfræðingur hefur samband við smitaðan einstakling og fær upplýsingar frá honum um hvar hann hefur verið og hverja hann hefur hitt og hvenær fyrstu einkenni byrjuðu og svo framvegis. Út frá þeim upplýsingum þá byrjum við að rekja þær og oft veit hinn smitaði ekki deili á þeim sem hann hefur hitt,“ segir Ævar.

Hann segir að þarna komi smitrakningaappið í góðar þarfir, en um þriðjungur þjóðarinnar hefur sótt appið í símann sinn.

„Miðað við upplýsingar frá landlækni í morgun þá eru það um 117.000 manns.“

Nú eru páskar fram undan sem í hugum margra eru dagar samveru með fjölskyldunni. En smitrakningateymið slær ekki slöku við um páskana.

„Nei, við höldum okkar striki,“ segir Ævar Pálmi Pálmason.