Sjö ný smit á Vestfjörðum

08.04.2020 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sjö greindust með COVID-19 á Vestfjörðum í gær. Alls eru þá 56 með sjúkdóminn í umdæminu. Einn er á sjúkrahúsinu á Ísafirði og tveir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Annar þeirra er á gjörgæslu.

Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík eru fjórir heimilismanna smitaðir og sex í sóttkví. Alls búa tíu á Bergi. Þeim smituðu er veitt meðferð á hjúkrunarheimilinu. Sex starfsmenn hjúkrunarheimilisins eru einnig með sjúkdóminn.

Að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, hefur verið tekinn mikill fjöldi sýna hjá fólki í umdæminu, sem er annað hvort með einkenni sjúkdómsins eða hefur verið útsett fyrir honum. Um tólf prósent hafa verið jákvæð. Ekki hefur komið til þess að Íslensk erfðagreining taki slembiúrtak eða skimi fyrir veirunni á Vestfjörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum voru um það bil hundrað sýni tekin í gær. Minnst sjö þeirra voru jákvæð. Samtals hafa greinst 56 smit á Vestfjörðum, meirihluti þeirra í Bolungarvík og á Ísafirði.

Tveir frá Vestfjörðum fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri eru fjórir inniliggjandi þar, tveir á gjörgæslu og annar þeirra í öndunarvél. Tveir sjúklinganna á Akureyri komu frá Vestfjörðum. Annar þeirra er á gjörgæslu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn sem liggur á almennri deild á Akureyri með COVID eiginmaður konu sem er á sjúkrahúsinu á Ísafirði vegna sjúkdómsins.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi