Rannsaka mótefni við kórónuveirunni að frumkvæði Kára

08.04.2020 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandaríska líftæknifyrirtækið Amgen, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, rannsakar nú hvort hægt sé að útbúa mótefni til þess að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi stungið upp á því við Amgen að hefja slíkar rannsóknir.

„Þessi tillaga frá mér er ekki tillaga um að búa til söluvöru, heldur framlag Amgen til baráttu heimsins gegn veirunni,“ segir Kári. Í grein breska blaðsins Guardian er greint frá því að slík vinna sé á fyrstu metrunum og þar komi Íslensk erfðagreining að með því að veita innsýn inn í skimun fyrirtækisins fyrir veirunni hér á landi.

Kári útskýrir það nánar í samtali við fréttastofu og segir að Amgen fái ekki neinn beinan aðgang að genatískum upplýsingum eða lífsýnum frá Íslenskri erfðagreiningu. Slík gögn eru ekki framseld, enda háð íslenskum reglum Persónuverndar og vísindasiðanefndar svo eitthvað sé nefnt.

„Mín tillaga var sú að við myndum í samvinnu við þá Íslendinga sem hafa læknast af sjúkdómnum, skoða erfðamengi þeirra,“ segir Kári. Þeir þurfa að veita samþykki fyrir slíku, en rannsaka á hvít blóðkorn þeirra og hvort mögulegt sé að hanna mótefni byggt á þeim rannsóknum.

Lækning það eina sem dugar þriðja heiminum

Kári segir að upphaf þess að rannsóknir Amgen við mögulegt mótefni fóru af stað megi rekja til þess að hann var inntur eftir því hvort mögulegt væri að nýta reynslu Íslenskrar erfðagreiningar við skimun í þriðja heiminum.

Kári segir að slíkt gangi ekki, þar sem innviðirnir í Afríku ráða ekki við að rekja smitleiðir og setja fólk í sóttkví í sama mæli og hér á landi. Það eina sem myndi duga til í þriðja heiminum væri að finna lækningu og þannig fór boltinn að rúlla varðandi rannsóknir á mótefni í verksmiðju Amgen.

Kári segir að Amgen hafi veitt Íslenskri erfðagreiningu ótakmarkað fjármagn til þess að skima fyrir veirunni hér á landi og þar hafi hann fengið stuðning frá upphafi.

„Þetta er eitt af þessum augnablikum í heimssögunni þar sem allir snúa bökum saman,“ segir Kári Stefánsson.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi