Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Maður á von á mesta skellinum þegar þessu lýkur“

08.04.2020 - 16:05
Mynd með færslu
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkarhlíðar. Mynd:
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, segir að starfsfólk þar geri ráð fyrir að fá holskeflu mála á sitt borð þegar samkomubanni líkur. Opnaður verður sérstakur neyðarsími fyrir þolendur ofbeldis yfir páskana.

„Við erum að gera ráð fyrir að það komi skellur í sumar. Það eru margar konur sem veigra sér við því að fara út úr ofbeldissamböndum á þessum tíma. Við reynum að halda fólki gangandi með stuningssímtölum. Maður á von á mesta skellinum þegar þessu líkur,“ segir Ragna. 

Hún vísar til þess að flestir leiti til Bjarkarhlíðar í janúar, eftir jól og áramót. 

„Samkomubann býr til ákveðnar aðstæður sem er erfitt að flýja. Þetta er eins og langt jóla- eða páskafrí. Við fáum alltaf holskeflur eftir jól.“ segir Ragna. 

Starfsemi Bjarkarhlíðar hefur verið með örlítið breyttu sniði eftir að samkomubannið hófst. Aðeins er einn starfsmaður í húsi en önnur viðtöl eru tekin gegnum síma. Ragna segir að svipað margir leiti til Bjarkarhlíðar nú og áður.

„Fólk er reyndar meira að hringja til að fá upplýsingar en það er aðeins minna bókað af viðtölum. Þetta eru oft konur sem treysta sér ekki til að hringja í Kvennaathvarfið eða lögregluna, en vilja fá ráðgjöf,“ segir hún.

Lögregla og almannavarnir hafa varað við því að hætta sé á auknu heimilisofbeldi í þeirri innilokun og minnkandi samskiptum sem fylgja samkomubanni. Bjarkarhlíð mun bregðast við þessari stöðu með því að opna fyrir sérstakan neyðarsíma um páskana, sem verður opinn allan sólarhringinn. Númerið er 664-8321.