Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Klárt mál að þetta myndi blossa upp aftur“

Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
„Það er afskaplega líklegt að á meðan hjarðónæmi er lítið og veiran leikur lausum hala einhvers staðar, þá muni hún koma aftur. Og ef við erum ekki á varðbergi, þá getur slík sýking stigmagnast og orðið faraldur á tiltölulega stuttum tíma, eða hópsýking sem breytist síðan í faraldur.“ Þetta segir Magnús Gottfreðsson, prófessor og læknir í smitsjúkdómum, þegar hann er spurður hversu líklegt sé að fleiri bylgjur kórónuveirufaraldursins séu væntanlegar, eftir að sú sem nú stendur yfir líður hjá.

Magnús segir að meðal annars sé hægt að horfa til spænsku veikinnar hvað þetta varðar.

„Og við vitum það einmitt frá 1918 að það tókst að einangra Norðurland um haustið, fyrir atbeina heimamanna. Og líka Austfirði og hluta af Snæfellsnesi. Og við vitum að spænska veikin kom síðan aftur og virtist í raun og veru vera alveg jafn illvíg þegar hún kom aftur á þessum stöðum, þar sem fólk var ekki með bein mótefni, ekki með neina vörn. Þannig að það er afskaplega líklegt að á meðan fólk hefur ekki fengið mótefni, annað hvort með náttúrulegri sýkingu eða í gegnum bólusetningu, þá verði þetta vandamál áfram,“ sagði Magnús í Morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun.

Magnús segir að í ljósi þessa sé mikilvægt að slaka alls ekki á aðgerðum á þessari stundu.

„Það má ímynda sér að ef einhverjum myndi detta í hug að aflétta hömlum í dag, þá er alveg klárt mál að þetta myndi blossa upp aftur.“

„Mjög áhugavert“

Magnús segir að það verði mjög áhugavert að skoða, þegar fram líða stundir, hvaða árangri mismunandi aðgerðir í löndum heims skiluðu.

„Sum lönd hafa kannski aðhafst lítið og seint og verið með litlar takmarkanir. Og það verður mjög áhugavert að sjá hvort hjarðónæmið eða útbreiðsla mótefna meðal þeirra þjóða sé miklu hærra en á meðal þjóða sem hafa gripið til strangari ráðstafana.“

Þannig segir Magnús að það verði til dæmis mjög áhugavert að sjá hvernig málin þróast í Svíþjóð, en þar hafa aðgerðir verið töluvert mildari en víðast hvar annars staðar.

„Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Svíunum tekst upp. Það er mjög mikið álag í Svíþjóð í augnablikinu og fyrirsjáanlegt að það verði eitthvað áfram. Og nýjustu spár sem ég hef séð spá talsvert á fimmta þúsund dauðsfalla þar. Og þeir hafa ekki verið jafn strangir varðandi sóttkví og einangrun eins og hefur komið fram. Það verður að koma í ljós hvort það hafi verið rétt stefna hjá þeim að taka þetta högg á sig með þessum hætti.“

Hver er hugmyndin hjá þeim, að gera þetta öðruvísi en önnur Norðurlönd til dæmis?

„Ég skal ekki um það segja í smáatriðum. Ég veit að bæði Bretland, Holland og Svíþjóð keyrðu eftir þessu módeli framan af. Síðan eftir að það kom fram nýtt spálíkan frá Imperial College, sem sneri sérstaklega að Bretlandi, þá sneru stjórnvöld algjörlega við blaðinu og ákváðu að fara í harðari aðgerðir, vegna þess að útlitið var bara of svart. Spálíkanið spáði þeim það miklum dauðsföllum að þeir töldu sig ekki geta haldið lengur áfram með þá stefnu. Og það sama gerðist eiginlega í Hollandi. Það urðu breytingar á þeirra stefnu. En Svíþjóð hefur eiginlega haldið áfram með sitt plan og sitt upplegg,“ segir Magnús.