„Hlýðum Víði, þetta er dauðans alvara“

08.04.2020 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síða Arnars Richardss
Arnar Richardsson er nú á batavegi eftir að hafa orðið nokkuð alvarlega veikur af COVID-19. Veikindin hafa varið í tæpan mánuð og er hann vongóður um að verða kominn til fullrar heilsu eftir eina til tvær vikur. Arnar hvetur fólk til að hlýða Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá Almannavörnum, og vera heima um páskana. „Hlýðum Víði, þetta er dauðans alvara,“ segir hann í færslu á Facebook.

Arnar er alla jafna heilsuhraustur og segir í samtali við fréttastofu að hann hafi stundað hlaup af kappi á þeim tíma er hann veiktist. „Ég taldi mig fullfrískan og í góðu formi.“ Hann var greindur með sjúkdóminn 22. mars og hafði þá verið veikur í tvo daga en verið með einkenni sjúkdómsins í tíu daga. Hann er með astma og hélt í fyrstu að hóstinn tengdist honum. 

Fór í sjálfskipaða sóttkví

Arnar býr í Vestmannaeyjum þar sem 103 hafa verið greindir með sjúkdóminn. Alls hafa 719 manns í Eyjum farið í sóttkví. Sjálfur fór Arnar í sjálfskipaða sóttkví 13. mars og hélt sig að mestu heima í von um að sleppa við að smitast af veirunni. Allt kom fyrir ekki og Arnar fékk sjúkdóminn. Fjölskylda hans smitaðist líka en varð þó ekki eins veik og hann. 

Mynd með færslu
Arnar Richardsson. Mynd: Aðsend mynd

„Ég var töluvert veikur í 6 daga mikill hiti, mjög mikill hósti, smá mæði og algerlega máttlaus. Ég átti erfitt með það eitt að tala og best var að liggja út af, þegja og reyna að sofa þetta úr sér,“ segir Arnar í færslu sem hann skrifaði á Facebook í gær og lýsti síðustu vikum. Sunnudaginn 29. mars var Arnar orðinn nokkuð hress en hrakaði mikið næsta dag. Þá voru teknar lungnamyndir á spítalanum í Eyjum þar sem í ljós kom að bólgur voru í báðum lungum og Arnar var sendur með sjúkraflugi á deild A7, COVID-19 deildina, á Landspítala.

Hann segir leguna á Landspítala vera lífsreynslu sem hann gleymi seint og að starfsfólkið sé ekki öfundsvert að vinna í þessum aðstæðum og í miklum hlífðarfatnaði. „Eftir dvölina á A7 er mér efst í huga kærleikurinn og hugulsemin hjá sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Þetta fólk er einstakt, að það skuli leggja sig í hættu við það eitt að þér líði betur er ómetanlegt og hreinlega ólýsanlegt.“ 

Hver sem er getur veikst af COVID-19

Í gær var Arnar fluttur aftur til Vestmannaeyja með sjúkraflugi, í sérstöku hylki fyrir sjúklinga með COVID-19. Aðspurður að því hvort hann hafi fundið fyrir innilokunarkennd í fluginu, segir hann svo ekki hafa verið. Bæði sé hann af þeirri kynslóð sem stundaði ljósalampa og sé einkaflugmaður, sagði hann kíminn. 

Nú dvelur Arnar í íbúð í Vestmannaeyjum, nálægt heimili sínu. Hann kveðst ekki hafa viljað dvelja heima og eiga á hættu að valda því að lengja einangrunartímann hjá fjölskyldunni, sem útskrifast eftir helgi. Hann hvetur fólk til að fara að öllu með gát og hlýða tilmælum Almannavarna og forðast mannamót. „Þetta getur komið fyrir hvern sem er og hitt hvern sem er illa.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi