Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gæti stefnt í 25% atvinnuleysi í Skútustaðahreppi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Stefnt gæti í 25 prósenta atvinnuleysi í Skútustaðahreppi á næstu mánuðum ef versta spá gengur eftir. Þá gætu útsvarstekjur dregist saman um 130 milljónir króna sem eru tæp 22 prósent af heildartekjum sveitarfélagsins.

Flest hótel og stærri gististaðir verða lokaðir út maí og stefnt að því að opna í byrjun júní með lágmarks starfsmannafjölda. Versta spá gerir ráð fyrir að allt að 200 stöðugildi gætu tapast í Mývatnssveit á næstu 9 mánuðum. 

Við það yrði Skútustaðahreppur af 130 milljóna króna útsvarstekjum sem eru 21,6%  af heildartekjum sveitarfélagsins. Atvinnuleysi í Skútustaðahreppi var 14,2% í mars, en áætlað atvinnuleysi í apríl er 24,5%. Til samanburðar var atvinnuleysi 3,7% í mars í fyrra og 3,4% í apríl.

Í nýjast fréttabréfi Þorsteins Gunnarssonar, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, kemur meðal annars fram hversu mjög háð sveitarfélagið er afkomu ferðaþjónustunnar. Því hefur sveitarstjórnin skorað á ríkisvaldið að koma með sértækar viðspyrnuaðgerðir fyrir sveitarfélög sem treysta srstaklega á ferðaþjónustuna og sjá fram á mikið atvinnuleysi og tekjusamdrátt líkt og í tilfelli Skútustaðahreppur.

Skútustaðahreppur greiddi upp langtímaskuldir sínar árið 2018 og Þorsteinn segir sveitarfélagið ágætlega í stakk búið til að takast á við efnahagslegt áfall. Nú þyki hins vegar ljóst að höggið sé með allra mesta móti og því verði reksturinn erfiður.