Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dreifing falsfrétta hefur aukist í faraldrinum

08.04.2020 - 20:01
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar. - Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Dreifing falsfrétta í Evrópu hefur aukist mikið í faraldrinum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að vefsíðum sem dreifa fölsuðum fréttum hafi fjölgað um 45%. Flestar þeirra eru í Kína, Rússlandi og Bandaríkjunum. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir brýnt að vera á varðbergi gagnvart falsfréttum hér á landi.

Upplýsingaóreiða og falsfréttir virðast grassera í Evrópu þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur verið sem skæðastur. Fjölmiðlanefndir og stofnanir í Evrópu segja falsfréttirnar aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi, rangar og misvísandi upplýsingar um töfralausnir fyrir þau sem hafa sýkst af COVID-19 eða ráð til þess að koma í veg fyrir smit. 

15.000 myndbönd fjarlægð af YouTube

Samkvæmt upplýsingum fá Evrópusambandinu fór YouTube yfir 100 þúsund myndbönd sem voru birt á tæplega tveggja mánaða tímabili. Af þeim voru 15 þúsund fjarlægð þar sem innihald þeirra þótti beinlínis skaðlegt. 

Í öðru lagi er í dreifingu mikið magn falsfrétta um COVID-19 almennt. Samkvæmt framkvæmdastjórn ESB hefur síðum sem dreifa slíkum fréttum fjölgað um 45 prósent. Einnig hefur orðið 30 prósenta aukning á dreifingu með persónulegum skilaboðum, aðallega á samfélagsmiðlum og hafa stjórnendur þeirra gripið til ýmissa ráðstafana. Auk þess að fjarlægja færslur er reynt að vísa á réttar upplýsingar. Á Facebook er hnappur sem vísar á upplýsingar um sjúkdóminn og leiðir notendur hér á landi meðal annars inn á covid.is. 

Þriðja tegund falsfrétta eru um að kórónuveiran sé ekki eins hættuleg og stjórnvöld haldi fram, heldur séu stjórnvöld að skerða ferðafrelsi fólks í annarlegum tilgangi. 

En hvaðan kemur þetta? Samkvæmt upplýsingum frá fjölmiðlanefnd hefur orðið veruleg aukning falsfrétta frá þremur ríkjum utan Evrópu. Mikið magn falskra upplýsinga kemur frá Rússlandi og Kína. Þá hefur verið sýnt fram á að svokallaðir alt-right hópar í Bandaríkjunum, sem er samheiti yfir hópa sem oft teljast öfga hægrisinnaðir og hvítir þjóðernissinnar, dreifa talsverðum fjölda falsfrétta í Evrópu.  

Fjölmiðlanefndir bregðast við aukningunni

Til þess að bregðast við þessari gríðarlegu aukningu falsfrétta, sem á tímum sem þessum geta verið beinlínis hættulegar, þá hefur samstarf fjölmiðlanefnda í Evrópu verið aukið og hafa þau setið á fjarfundum síðustu vikurnar. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir að hér á landi þurfi að hafa varann á gagnvart falsfréttum. „Við sjáum að það er orðin gríðarleg aukning á dreifingu falsfrétta í Evrópu og það eru þær tölur og ástæðan fyrir því að allar fjölmiðlanefndirnar eru að vinna í þessu núna. Við sjáum það í nýlegri könnun í Noregi að 45 prósent af þeim falsfréttum sem eru þar fjalla um COVID og síðan sjáum við það líka að það er gríðarlega mikil aukning á einkaskilaboðum, og þetta er til dæmis mjög mikið vandamál víða í álfunni, meðal annars á Írlandi og í Bretlandi,“ segir Elfa Ýr.

Mikilvægt að lesa fréttir gagnrýnum augum 

Til að greina á milli sannra frétta og falsfrétta þarf fólk að vera gagnrýnið á þær fréttir sem það les og hafa í huga að það sé ekki allt rétt sem birt er á samfélagsmiðlum. Elfa Ýr segir mikilvægt að hlusta á það hvað sérfræðingar hafi að segja um faraldurinn, sem og faglegir fjölmiðlar.