Tvær flugvélar á leið til Kína að sækja lækningavörur

07.04.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Boeing 767 breiðþota á vegum Icelandair flýgur í fyrramálið til Sjanghæ í Kína til að sækja 17 tonn af lækningavörum fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Til stendur að fara í aðra ferð í sama tilgangi í næstu viku. Þetta segir Gunnar Már Sigurfinsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.

„Þetta er búið að vera í nokkra daga í undirbúningi. Við erum að sækja hefðbundnar læknavörur sem heilbrigðisstarfsfólk þarf á að halda vegna Covid-19, hlífðarbúnað og annað sem hefur verið skortur á,“ segir Gunnar Már.

Áhöfnina skipa sex flugmenn, þrír hlaðmenn og tveir flugvirkjar sem allir eru á vegum Icelandair. Er þetta gert til að flugið taki eins stuttan tíma og hægt er. Áhöfnin skiptist þannig á að hvílast en vélin flýgur til Sjangæ án þess að millilenda.

Erfitt að verða sér úti um vörurnar 

Lækningavörurnar eru framleiddar og keyptur í Kína en flutningsmiðlarinn DB Schen­ker sér um kaupin fyrir íslensk stjórnvöld. Kaupferlið er flókið, vörurnar eru framleiddar víða í Kína og það þarf að koma þeim öllum til Sjanghæ. Þá eru ýmis leyfi sem þarf til að flytja þær til Íslands. 

„Það sem er óvenjulegt við þetta flug er að við höfum aldrei áður notað sæti í farþegarými fyrir vörur. Það var veitt sérstök undanþága í þessu tilfelli. Vélinni verður flogið tómri til Kína og fraktin verður svo sett í farangurshólf og sætaraðir sem hafa verið hólfaðar niður,“ segir Gunnar Már. 

Talin öruggasta leiðin

Á tímum Covid-19 er erfitt að koma lækningavörum frá Asíu til Íslands, þar sem flest lönd heims eru á höttunum eftir samskonar búnaði. 

„Það er mjög erfitt að koma þessum vörum til Evrópu og það var metið þannig að þetta væri væri besta leiðin til að tryggja að vörurnar komi á réttum tíma til Íslands,“ segir Gunnar. 

Annað flug á dagskrá í næstu viku

Til stendur að annað flug verði farið til Sjanghæ í næstu viku til að sækja annað eins magn af lækningavörum. Gunnar segir þessar aðstæður mjög sérstakar. 

„Ég get alveg fullyrt að á seinni tíma höfum við ekki staðið í svona flutningum. Ég er búinn að vera lengi hjá Icelandair og man ekki eftir neinu svona flugi.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi