Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur stefna í mestu krísu í hundrað ár á Íslandi

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Róðurinn í efnahagsmálum hefur þyngst hraðar en gert var ráð fyrir í upphafi kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir stefna í mestu krísu hér á landi í heila öld og að stjórnvöld séu að endurskoða hvort grípa þurfi til harðari aðgerða.

„Við erum að reyna að átta okkur á því hvort við erum að ná markmiðum okkar með þeim aðgerðum sem þegar er búið að grípa til. Við erum líka að spyrja okkur hvar við höfum ekki náð til þeirra sem eru að lenda í vanda. Það er bara staðreynd að róðurinn er að þyngjast hraðar og hjá fleirum en við sáum fyrir í upphafi marsmánaðar, svo dæmi sé tekið,“ segir Bjarni.

Hann segir róðurinn meðal annars þyngri vegna framlengingu á samkomubanni og alþjóðlegra ráðstafana varðandi ferðalög, sem séu mun umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Það hafi miklar afleiðingar hér á landi.

Spá um 100 milljarða halla orðin enn svartari

Bjarni sagði um miðjan mars að hann reiknaði með því að ríkissjóður yrði rekinn með allt að hundrað milljarða króna á þessu ári vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Sú sá er orðin mun svartari.

„Ef menn eru að leita að einhverri tölu til þess að átta sig á því hvert verður höggið fyrir ríkissjóð, þá getum við alveg gleymt því að vera að tala um hundrað milljarða eins og ég nefndi að við værum komin yfir. Við erum farin að tala um að minnsta kosti tvöfalda þá fjárhæð, eða meira,“ segir Bjarni.

Hver endanleg niðurstaða verður ræðst af því hversu langvinn þessi krísa verður. 

„En þetta stefnir í að verða ein mesta krísa í hundrað ár á Íslandi, í efnahagslegu tilliti. Og þá er gott að vita til þess að við höfum nýtt góðu tímana til þess að hafa svigrúm til að takast á við slíka tíma, án þess að hér fari allt á hliðina,“ segir Bjarni Benediktsson.