Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stuðningur við stjórnina eykst enn

07.04.2020 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Stuðningur við ríkisstjórnina fer enn vaxandi og hefur ekki mælst meiri síðan í janúar árið 2018, skömmu eftir að hún var mynduð. Fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem tók kipp upp á við í síðustu könnum MMR, minnkar milli kannana en stuðningur við Vinstri-græn eykst.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Samkvæmt henni fer stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn úr 27,4 prósentum í 23,5 prósent. Það er þó ennþá meira en fylgið sem flokkurinn mældist með í febrúar, sem var 21,3 prósent. Stuðningur við Vinstri græna mælist nú 12,3 prósent en var 9,8 prósent í síðustu könnun. Þetta eru einu flokkarnir sem sýna breytingu á fylgi umfram vikmörk. Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna að öðru leyti. Fylgi Pírata mælist nú 12,2 prósent en var 10,2 prósent í síðustu könnun og er sú breyting rétt innan vikmarka. 

 

Samkvæmt þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósenta fylgi, Samfylkingin með 14,1 prósent, Vinstri-græn með 12,3 prósent og Píratar með 12,2 prósent. Fylgi Miðflokksins mælist 10,7 prósent, fylgi Viðreisnar 9,6 prósent og fylgi Framsóknarflokksins 8,8 prósent. Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins mælast með sitt hvor 3,4 prósent sem myndu ekki duga til sætis á þingi nema þau fengju kjördæmakjörinn þingmann. 2,1 prósent sögðust myndu kjósa aðra flokka.

Úr 39 prósenta stuðningi í 57 prósent

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur mælst í kringum 40 prósent í flestum könnunum síðan í október 2018. Stuðningur við stjórnina hefur aukist mjög eftir að COVID-19 faraldurinn fór að geisa um heimsbyggðina. Í mars fór stuðningur við stjórnina úr 38,8 prósentum í 52,9 prósent og nú styðja 56,7 prósent landsmanna stjórnina samkvæmt könnuninni.

66,7 prósent lýstu stuðningi við stjórnina í fyrstu könnun eftir að hún var mynduð. Fljótlega dró úr stuðningnum og eftir júní hafði hann aldrei mælst meiri en 50 prósent fyrr en í síðasta mánuði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV