Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Pell kardínáli sýknaður af öllum ákærum í hæstarétti

07.04.2020 - 01:51
epa08346431 (FILE) - Australian Cardinal George Pell (C) leaves the County Court in Melbourne, Victoria, Australia, 26 February 2019 (reissued 06 April 2020). The Australian high court on 07 April 2020 is set to rule on Cardinal George Pell's final appeal to overturn his conviction for child sexual abuse. Pell is serving a six-year jail sentence for abusing two boys in the 1990s.  EPA-EFE/DAVID CROSLING AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
George Pell, ástralski kardínálinn sem sakfelldur var og dæmdur til fangelsisvistar fyrir barnaníð, hefur verið látinn laus þar sem hæstiréttur Ástralíu sneri dómi undirréttar og sýknaði hann af öllum ákærum.

Pell, sem er 78 ára gamall, var fjármálastjóri Vatikansins, einn nánasti ráðgjafi páfa og hæst setti kaþólski klerkurinn sem fangelsaður hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Kviðdómur sakfelldi hann 2018 og taldi sannað að hann hefði misnotað tvo drengi í Melbourne á tíunda áratug síðustu aldar, þegar hann gegndi prestsembætti þar í borg. Dómari úrskurðaði í framhaldinu að sex ára fangelsi væri hæfileg refsing, en nú hefur Pell verið látinn laus.

Einróma niðurstaða fullskipaðs hæstaréttar

Hæstiréttur var fullskipaður í þessu máli og voru dómararnir sjö á einu máli um að sýkna skyldi kardínálann fyrrverandi. Töldu þeir einsýnt að kviðdómurinn hefði ekki farið nógu vel yfir öll málsgögn sem lögð voru fram í réttarhöldunum 2018. Hefðu kviðdómarar gert það, segir í úrskurði hæstaréttar, þá hefðu þeir ekki getað horft fram hjá því að sekt Pells var alls ekki hafin yfir skynsamlegan vafa. 

Pell fagnaði úrskurði hæstaréttar og segir að með honum hafi miklu óréttlæti verið hrundið. Hann hefur haldið fram sakleysi sínu allar götur síðan honum var birt ákæran árið 2017. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV