Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Moody´s heldur lánshæfismati ríkissjóðs óbreyttu

07.04.2020 - 17:54
epa03596305 (FILE) A file picture dated 13 July 2011 shows the Moody's logo outside the offices of Moody's Corporation in New York, New York, USA. The ratings agency Moody's on 22 February 2013 lowered Britain's top AAA credit rating
 Mynd: EPA - EPA FILE
Lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefur ákveðið að halda lánshæfismati ríkissjóðs óbreyttu með stöðugum horfum. Moody´s telur smæð hagkerfisins og mikla samþjöppun skapa því hættu. Hins vegar sé hér stöðugleiki, meðal annars vegna minni skuldsetningar ríkissjóðs.

 

Telur Moody´s að landsframleiðsla á Íslandi dragist saman um 4 prósent í ár, en verði komin strax upp í 1,6 prósent á næsta ári. Sviðsmyndir Seðlabankans gera aftur á móti ráð fyrir að samdrátturinn verði 2,5 til 5 prósent í ár og hugsanlega meiri.  

 

Moody´s gerir ráð fyrir að  sterk staða ríkisfjármála og öflugar innlendar stofnanir muni styðja við lánstraust Íslands á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir með töluverðum en tímabundnum áhrifum á efnahag og fjármál.

Moody´s gerir ráð fyrir að áhrifin á ferðaþjónustuna muni vara lengur en til áramóta, en býst ekki við því að fjármálalegum stöðugleika verði ógnað.

Moody´s segir þó að ef skuldir ríkissjóðs myndu aukast verulega og skuldaaukningin vera viðvarandi þá gæti það ógnað stöðugleika.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV