Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lífsreynd steinbryggja orðin hluti af nýju torgi

9. ágúst 1907, konungsheimsókn Friðriks VIII. til Íslands. Hópur fólks kveður konung á steinbryggjunni í Reykjavíkurhöfn. Konungur kveður mannfjöldanum, fyrir framan hann stendur Hannes Hafstein ráðherra. Léttabátur sem flutti konung og fylgdarlið til
 Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Lífsreynd steinbryggja orðin hluti af nýju torgi

07.04.2020 - 07:34

Höfundar

Gamla steinbryggjan sem lá áratugum saman undir Tryggvagötu kom aftur í ljós að hluta við gatnaframkvæmdir 2018. Var síðan ákveðið að hún fengi að halda sér og nýju torgi við hana var nefnt Steinbryggja á liðnu ári. Margir sögulegir atburðir hafa gerst á steinbryggjunni og við hana frá því að hún var reist árið 1884.

Þegar bryggjan var upphaflega smíðuð, árið 1884, var hún bæði úr tré og grjóti. Það var fremri endinn sem var úr tré, en brátt kom í ljós að hann vildi brotna í miklum sjógangi. 1892 var því Julius Schau steinhöggvari fenginn til að gera við bryggjuna svo að hún yrði eingöngu úr grjóti. 1905 var bryggjan lengd og hækkuð og sá bæjarfulltrúinn Tryggvi Gunnarsson um verkið. Komst bryggjan þá í þá mynd sem hún hafði síðan: breið steinbryggja sem lækkaði smám saman eftir því sem hún kom lengra út í sjóinn. Ekki voru samt allir ánægðir með bryggjuna og sumir uppnefndu hana Tryggvasker í höfuðið á Tryggva. Opinbert nafn bryggjunnar var reyndar Bæjarbryggjan, en í munni flestra hét hún einfaldlega Steinbryggjan.

Kóngi og eimskipi fagnað á steinbryggjunni

Oft var tignum gestum fagnað á steinbryggjunni og sérlega mikið var um dýrðir sumarið 1907 þegar sjálfur konungurinn, Friðrik VIII Danakonungur, heimsótti Ísland. Steig hann á land á steinbryggjunni kl. 9.00 að morgni 29. júlí. Blaðið Ísafold segir:

Þá dundu við skot á herskipunum öllum. Rautt klæði hafði verið lagt upp eftir Bæjarbryggjunni og allmiklum smámeyjahóp í hvítum klæðum verið raðað þar á tvær hendur. Þær stráðu blómum á braut konungs eftir bryggjunni.

Og síðar segir:

Sigurbogi hafði reistur verið ofan við bryggjuna, hár og mikill, með tvöföldum stoðum og bili í milli, hinum innri með hvítum röndum og rauðum, en hinum ytri hvítum og blám, og lyngfléttum vafið utanum stoðirnar endilangar. Yfir boganum var konungskóróna. Bæjarfógeti og bæjarstjórn fagnaði konungi neðan við bogann.

Ekki var síður mikið um að vera árið 1915 þegar komu skipsins Gullfoss, fyrsta eimskips Íslendinga, var fagnað árið 1915, en þá blakti við steinbryggjuna stór skrautborði með orðunum „Velkominn Gullfoss“.

Slegist á steinbryggjunni

Verkalýðsátök áttu sér líka stað á steinbryggjunni. Í apríl 1916 gerðu hásetar á togurum verkfall. Mikill hiti var í mönnum og 1. maí 1916 sagði Morgunblaðið um verkfallið:

Það er nú farið að gerast ýmislegt sögulegt í því máli. Urðu talsverðar róstur í gærmorgun niðri á steinbryggjunni.

Átökin spunnust út af deilum um það hvort togararnir Marz og Bragi hefðu rétt á því að sigla af stað með hálfa áhöfn. Ólafur Friðriksson hélt fram málstað háseta og lenti í ryskingum á bryggjunni, en að sjálfsögðu ber blöðunum ekki saman um það hverjir hafi átt upptökin að slagsmálunum. Í blaðinu Dagsbrún, sem Ólafur ritstýrði, birtist bragur undir heitinu „Slagurinn á steinbryggjunni“ og er fyrsta erindið svohljóðandi:

Á steinbryggjunni stóðu þeir
stæðilegir báðir tveir
og Óli vissi ekki meir
fyr en á hann rauk hinn þrútni Geir,
af bræði.

Einn fyrsti íslenski flugvöllurinn?

Í sögu flugs á Íslandi gegndi steinbryggjan mikilvægu hlutverki. Þótt ótrúlegt megi virðast má segja að hún hafi verið einn fyrsti íslenski flugvöllurinn. Kannski væri þó réttara að segja að sjórinn hafi verið það. Á þessum tíma voru flestar flugvélar litlar og margar þeirra voru sjóflugvélar, gátu lent á sjó og voru síðan dregnar upp á land. Það er þar sem steinbryggjan kemur við sögu. Erlendar flugvélar lentu við hana og í júní 1928 gerðist sérlega mikilvægur atburður í íslenskri flugsögu á steinbryggjunni þegar vígð var fyrsta íslenska flugvélin til áætlunarflugs fyrir farþega, flugvél sem hið nýja Flugfélag Íslands hafði keypt. Blaðið Ísafold segir:

Múgur og margmenni var niður við steinbryggju, meðan verið var að setja saman flugvjelina. Um miðjan dag á fimtud. var alt komið á vjelina nema vængirnir. Var hún þá færð úr „hrófinu" og ekið út á bryggjusporðinn. Þar voru vængirnir settir á. Málað var á vjelina nafn Flugfjelagsins og nafn hennar sjálfrar. Heitir hún Súlan. Íslenski fáninn var málaður á stjelið beggja megin.

Steinbryggjan hverfur og birtist aftur

Steinbryggjan hvarf undir uppfyllingu í kringum 1940, skaut sem snöggvast aftur upp kollinum við framkvæmdir 1967, en var svo hulin að nýju fram til ársins 2018. Þá var ákveðið að hafa hluta hennar sýnilegan hér eftir og 2019 var vígt nýtt torg við steinbryggjuna sem heitir í höfuðið á henni og ber nafnið Steinbryggja. Torgið prýða ljóðlínur úr kvæðinu „Vetur“ eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur.

Í þættinum Atvik í lífi steinbryggju sem verður á dagskrá Rásar 1 á föstudaginn langa kl. 17.00 verður sagt frá ýmsum atburðum sem orðið hafa á steinbryggjunni og við hana frá því að hún var reist árið 1884. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.

Mynd: Konungurinn stígur á land á steinbryggjunni 1907.