Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Kjánalegt að þurfa að tala um þetta enn einu sinni“

07.04.2020 - 15:18
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Ekki stendur til að setja á útgöngubann um páskana til þess að bregðast við því ef fólk ætlar sér út úr bænum í stað þess að fara eftir tilmælum almannavarna og halda sig heima. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að lögregla yrði með aukið eftirlit um páskana.

„Við höfum rætt þetta áður og ætlum ekki að banna þetta, en í alvörunni. Hérna erum við að ræða gríðarlega alvarlegt ofbeldi á heimilum og börn sem búa við óviðunandi aðstæður. Ætlum við virkilega að fara að taka þessa sénsa, að þvælast upp í bústað um páskana í stað þess að vera heima hjá okkur? Förum bara í gönguferðir og hegðum okkur almennilega,“ sagði Víðir, en aukið heimilisofbeldi var til umræðu á fundinum.

„Ef við sjáum eitthvað, þá segjum við eitthvað og látum vita af því. Upplýsum um það, hjálpumst að við að vernda börnin okkar og hjálpa fólki sem verður fyrir heimilisofbeldi,“ sagði Víðir.

Heimsóknarbann gildir í báðar áttir

Almannavarnir hafa fengið fyrirspurnir frá fólki sem er vant því að fá ættingja sína af hjúkrunarheimilum heim í mat um páska. 

„Það bara gengur ekki. Við erum með heimsóknarbann og það gildir í báðar áttir. Það er líka hætta á því að ef fólk er tekið út af hjúkrunarheimilum, að það geti ekki fengið að komast inn aftur,“ sagði Víðir.

Hann ítrekaði að lokum að fólk færi eftir tilmælum, sem ekki væru gefin út ástæðulaust.

„Það er eiginlega kjánalegt að þurfa að tala um þetta enn einu sinni. En það sem við höfum sagt svo oft; þegar við förum í verslanir þá verðum við að virða tveggja metra regluna. Stöndum í þessu saman,“ sagði Víðir.