Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

HM í Katar 2022 gæti verið í hættu vegna nýrra gagna

epa08334979 (FILE) - The FIFA logo on display prior to the FIFA Council meeting at the Home of FIFA in Zurich, Switzerland, 14 October 2016 (re-issued on 31 March 2020). The world governing body FIFA will set up a fund to assist competitions and players which have run into financial trouble because of the ongoing coronavirus COVID-19 pandemic, media reports stated on 31 March 2020.  EPA-EFE/ENNIO LEANZA
 Mynd: EPA

HM í Katar 2022 gæti verið í hættu vegna nýrra gagna

07.04.2020 - 10:35
Fyrrum stjórnarmenn Alþjóðaknattspyrnusambandsins tóku við mútum í skiptum fyrir atkvæði sín um að Rússland og Katar yrðu gestgjafar HM í fótbolta 2018 og 2022 samkvæmt nýjum gögnum sem lögð voru fram í dómssal í Bandaríkjunum í dag.

Næstum tíu ár eru síðan Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, komst að þeirri umdeildu niðurstöðu í kosningum að heimsmeistaramótið í fótbolta skyldi haldið í Rússlandi 2018 og í Katar 2022. Það var svo ekki fyrr en árið 2015 sem bandarísk lögregluyfirvöld hófu formlega rannsókn á málinu og það varð ljóst að kerfisbundin spilling virtist hafa grasserað innan sambandsins. Sex háttsettir embættismenn Alþjóðaknattspyrnusambandsins voru handteknir í maí 2015 og ákærðir fyrir víðtæka spillingu innan sambandsins sem náði tvo áratugi aftur í tímann. Þáverandi forseti sambandsins, Sepp Blatter, sagði að lokum af sér eftir að hlotið mikla gagnrýni vegna málsins.

Ný gögn sögð sýna fram á spillinguna í smáatriðum

Í morgun var svo ný formleg ákæra birt fyrir rétti í Bandaríkjunum. Skjölin eru sögð sýna fram á að nokkrum fyrrum meðlimum framkvæmdastjórnar FIFA hafi verið boðnar, eða þeir þegið, mútur í skiptum fyrir atkvæði sín. Ákæruvaldið beinir nú spjótum sínum aðallega að fyrrum stjórnarmönnunum Nicolas Leoz og Ricardo Teixera en þeir eru báðir sakaðir um að hafa tekið við greiðslum í skiptum fyrir atkvæði sín um að Katar haldi HM 2022. Leoz lést hins vegar í stofufangelsi á síðasta ári og Texeira hefur fengið lífstíðarbann frá störfum sínum í knattspyrnuheiminum fyrir að taka við mútum í störfum sínum frá 2006-2012.

Þá var fyrrum varaforseti FIFA, Jack Warner, sagður hafa fengið greiddar fjórar milljónir punda í gegnum aflandsfélög til þess að Rússland fengi að halda heimsmeistaramótið 2018. Warner hefur einnig verið bannaður fyrir lífstíð í störfum tengdum knattspyrnuheiminum. Þá eru gögnin einnig sögð sýna fram á að Rafael Salguero, fyrrum stjórnarmanni sambandsins, hafi verið lofað mútum í skiptum fyrir atkvæði sitt um að Rússland fengi HM 2018. Fyrrum stjórnendur hjá bandaríska sjónvarpsrisanum 21th Century Fox hafa einnig verið ákærðir fyrir að hafa mútað starfsmönnum suður-ameríska knattspyrnusambandsins til að fá sýningarrétt á fótboltaleikjum.

Aðstoðaryfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, William Sweeny, segir að fjárplógsstarfsemi og mútuþegni hafi verið rótgróin aðferð innan knattspyrnuheimsins í áratugi. „Fyrstu opinberu ákærurnar komu fram árið 2015 og það að við séum enn að vinna í þessu ætti að sýna þeim sem halda enn að þeir komist upp með þetta að við munum finna ykkur,“ sagði Sweeny. Alls hafa 42 verið ákærðir vegna málsins frá árinu 2015 og 26 játað sök sína.

Áhrif nýrra ásakana gæti haft áhrif á Katar

Bandarísk yfirvöld hafa ekki áður sýnt  fram á spillinguna í slíkum smáatriðum og nú segir í frétt BBC um málið. Þetta gæti mögulega þýtt að HM í Katar eftir tvö ár gæti verið í hættu, takist að sýna fram á spillinguna, en undirbúningur þar í landi fyrir mótið er nú á lokametrunum. Þrátt fyrir áralangar grunsemdir um að Rússland og Katar hafi fengið mótin með grunsamlegum hætti hafa löndin bæði ávallt neitað því að koma nálægt einhverskonar spillingu eða mútugreiðslum. Alþjóðaknattspyrnusambandið gæti því nú verið undir miklum þrýstingi á ný að opna rannsókn á því hvernig kosningarnar fóru fram.

Tengdar fréttir

Erlent

FIFA-toppar hækkuðu eigin laun um 10 milljarða

Fótbolti

Vikan sem FIFA fór á hliðina