Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Furðar sig á skilyrðum kjarasamnings Rio Tinto

07.04.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Forstjóri Landsvirkjunar segir það sæta furðu að Rio Tinto hafi skilyrt kjarasamninga við starfsmenn sína á Íslandi við að raforkusamningur við Landsvirkjun verði endurskoðaður. Formaður verkalýðsfélagsins Hlífar segir Rio Tinto að ákveðnu leyti beita starfsmönnum fyrir sig í baráttu fyrir betri raforkusamning.

Skilyrði að samningur náist um lægra raforkuverð

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að for­svars­menn Rio Tinto telji að ein af for­send­um þess að hægt verði að halda starf­sem­inni áfram gang­andi sé að raf­orku­kaupa­samn­ing­ur við Lands­virkj­un verði end­ur­skoðaður. Nýgerður kjarasamningur, sem gerður hefur verið við starfsfólk ákversins, sé bundin af því skilyrði að nýr samn­ing­ur tak­ist við orku­fyr­ir­tækið.

Í kjarasamningnum er kveðið á um að nýr kjarasamningur falli úr gildi 30. júní ef viðræður Rio Tinto við Landsvirkjun um núgildandi raforkusamning milli fyrirækjanna skilar ekki árangri. Landsvirkjun var ekki meðvituð um ákvæðið fyrr en Morgunblaðið birti umfjöllun um stöðu álversins í morgun. 

Launþegar vopn í baráttu fyrir betri raforkusamning

„Við vitum það bara að staðan hjá fyrirtækinu er þannig að þeir sjá kannski ekki rekstrargrundvöll fyrir starfseminni miðað við heimsmarkaðsverð á áli og annað miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Ég reikna með að það verði gengið frá einhvers konar samkomulagi við Landsvirkjun en í þessu er ekkert talað um hvað samningarnir, hvort raforkuverðið fari upp eða niður. Það er ekkert getið um það í þessu. Þetta er bara forsenduákvæði sem þeir gefa sér,“ segir Kolbeinn Gunnarsson formaður verkalýðsfélagsins Hlífar.

Æskilegra hefði verið ef ekki hefði verið opnunarákvæði í samningnum og samningurinn myndi gilda til marsmánaðar 2021.

„Er Rio Tinto ekki með þessu að einhverju leyti að beita launþegum og verkalýðshreyfingunni í þessari baráttu fyrir betri samning? Jú, það má alveg segja það miðað við þetta en það er spurning hvernig spilast svo úr því en sjálfsagt er alltaf verið að beita þrýsting á öllum sviðum þegar eitthvað er verið að gera með kjarasamninga,“ segir Kolbeinn.

Segir sérstakt að hóta lokun og málaferlum

Í yfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sendi frá sér í dag segir hann það sæta furðu að alþjóðlegt risafyrirtæki hafi skilyrt kjarasamninga við starfsmenn sína á Íslandi aðgerðum fyrirtækis í eigu íslensku þjóðarinnar sem hefur ekkert með þá kjarasamninga að gera. Þá sé sérstakt að því sé haldið fram í Morgunblaðinu að Rio Tinto íhugi að leggja niður starfsemi í Straumsvík í tvö ár og sé jafnframt að íhuga málaferli gegn Landsvirkjun á sama tíma og álverið greiddi móðurfélagi sínu 130 milljónir dollara í arð árið 2017.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV