Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biður ofbeldismenn að leita sér hjálpar

07.04.2020 - 20:00
Mynd með færslu
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. Mynd: Lögreglan
Forsætisráðherra segir að aðgerðir gegn heimilisofbeldi og aukin vernd barna séu í forgangi hjá stjórnvöldum. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins hvetur ofbeldismenn til að leita sér hjálpar, líkur séu á að sá sem beiti ofbeldi geri það aftur. 

Einn fylgifiskur kreppu og erfiðs ástands er heimilisofbeldi, bæði gegn börnum og fullorðnum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri ræddi þessi mál í morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun.

„Það hafa gerst tvö hræðileg heimilisofbeldismál, eða allt bendir til þess að það sé þannig.“

Þar vísar Sigríður Björk til þess að tveimur konum var ráðinn bani á heimili sínu með stuttu millibili. Þá komu nágrannar ungri konu til bjargar úti á götu í Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöldi, en hún var að flýja mann sinn. Sigríður Björk nefndi í þættinum nýjar tölur sem henni bárust.

„Það er ekkert mikil aukning. Aukningin hefur verið að koma smám saman. Það er aðeins aukning á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Við þurfum bara að vera vakandi fyrir þessum tölum. Rannsóknir sýna það að ofbeldi getur aukist í svona ástandi, innilokun.“

Heimilisofbeldi var rætt á fundi ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum í síðustu viku. Allir lýstu þeir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi og brotum gegn börnum.

 „Versta mögulega staðan er að halda að sér höndum, þótt þú vitir að þarna sé ásdtand sem stendst engan veginn lög eða aðbúnað fyrir fjölskyldu, segir ríkislögreglustjóri.

Forsætisráðherra segir að vel sé fylgst með þessum málum.

„Við erum mjög meðvituð um þetta. Bæði erum við auðvitað að fjárfesta til lengri tíma, til að mynda með uppbyggingu hjá Kvennaathvarfinu, það var hluti af fjárfestingarátaki okkar á þessu ári vegna þess að við erum meðvituð um þetta. Félags- og barnamálaráðherra hefur gripið til sérstakra aðgerða hvað varðar barnavernd. Og á sviði jafnréttismála sem heyra undir mig þá erum við sömuleiðis að horfa til þessara mála í góðu samstarfi við félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, þannig að þessi mál eru í forgangi hjá okkur.“

Sigþrúðu Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins var á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar talaði hún beint til ofbeldismanna. Þeir iðrist stundum ofbeldisins fyrst á eftir og lofi bót og betrun, aðstæður hafi leitt til þess að þeir misstu stjórn á skapi sínu og segi það ekki gerast aftur. 

„Hvert okkar sem þekkir sig hugsanlega í þeim aðstæðum að hafa ekki fundið aðra leið til að leysa ágreining eða koma óánægju sinni á framfæri eða halda stjórninni á heimilinu eða eitthvað slíkt, enga aðra leið en að beita ofbeldi, hvort sem er svívirðingum eða hótunum eða líkamlegu ofbeldi að leita sér hjálpar. Vegna þess að líkurnar á að slíkt gerist, hafi það gerst einu sinni eru líkur á að það gerist aftur og við erum í áhættu varðandi þetta akkúrat núna.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV