Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja flytja risakóngulær til landsins

06.04.2020 - 08:32
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun veitti Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal í Reykjavík nýlega leyfi til að flytja inn risakóngulær, sem eru kannski betur þekktar sem tarantúlur. Sérfræðinganefnd sem fór yfir beiðni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins segir að útilokað sé að risakóngulærnar geti lifað af utandyra við íslenskar aðstæður. Þær þurfa mikinn hita og raka auk vatns og fæðu. Það er því útilokað að kóngulærnar lifi af ef þær sleppa út, samkvæmt umsögn nefndarinnar.

Kóngulærnar verða notaðar til sýninga og fræðslu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og hugsanlega við meðferð vegna ofsahræðslu við kóngulær.

Umhverfisstofnun samþykkti líka beiðni um innflutning á fjórum fésuglum sem verða hafðar til sýnis í sérstöku húsnæði. Sérfræðinganefnd taldi ólíklegt að þær gætu þrifist í íslenskri náttúru.

Sérfræðinganefndin er skipuð sérfræðingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskólanum, Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og sameiginlegum fulltrúa Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Leyfi Umhverfisstofnunar liðkar fyrir innflutningi risakóngulóa og fésugla en fleiri leyfa er þörf áður en af innflutningi verður.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV